Alelda á fimm mínútum: „Börnin út!"

Brynjar stendur fyrir framan alelda bílinn.
Brynjar stendur fyrir framan alelda bílinn. Ljósmynd/Aðsend

Hurð skall nærri hælum er bíll varð alelda á fimmtudaginn á Mjóafjarðarheiði. Foreldrar og fimm börn voru í bílnum sem varð alelda á um það bil fimm mínútum.

Árný Jenssen, fjölskyldumóðirin og ökumaður bifreiðarinnar, segir í samtali við mbl.is að það fyrsta sem hún hafi hugsað hafi verið að koma börnunum út. 

„Börnin út! Það er nákvæmlega það fyrsta sem ég hugsaði. Við sáum eldinn undir húddinu og við rifum börnin úr bílnum strax,“ segir Árný.

Öll fjölskyldan komst heil á húfi frá bílnum.
Öll fjölskyldan komst heil á húfi frá bílnum. Ljósmynd/Aðsend

Rifu börnin út úr bílnum

Fjölskyldan var að keyra upp brekku þegar bifreiðin stoppar skyndilega. Á mælaborðinu var vélarljósið og rafgeymaljósið komið á. Árný hnippti þá í manninn sinn Brynjar Frey Burknason fjölskyldufaðirinn og þau kíktu saman á húddið á bifreiðinni. 

„Ég og maðurinn minn kíkjum á húddið en við náum ekki að opna það, reykurinn er strax byrjaður að koma. Hann reynir að opna húddið og tekur eftir því að það er orðið heitt, svo nær hann aðeins að lyfta því og þá sjáum við eldinn þarna undir,“ segir hún og bætir við:

„Þá fórum við beint sitthvoru megin við bílinn til að rífa börnin út. Þegar við erum að taka börnin út þá er eldurinn kominn á framrúðuna."

Bíllinn mikið brunninn og gjörónýtur eins og sjá á.
Bíllinn mikið brunninn og gjörónýtur eins og sjá á. Ljósmynd/Aðsend

Hefði getað farið verr

Atburðarásin var mjög hröð. Þau fjarlægðu börnin úr bílnum og svo hafði Brynjar hraðar hendur og fór inn í ökutækið til að ná í mikilvægar eignir fjölskyldunnar. Þegar því var lokið var bíllinn orðinn alelda, aðeins fimm mínútum eftir að þau sáu eldinn upprunalega. 

Bæði Árný og Brynjar hugsuðu allan tímann um að ná börnunum út en Árný segir að við svona aðstæður þá sé lítið annað sem maður hugsi um. Börnin björguðust þó það hefði getað farið verr.

„Hefðum við hugsað örlítið hægar þá hefði þetta ekki farið svona vel.“

Mynd af bílnum alelda.
Mynd af bílnum alelda. Ljósmynd/Aðsend

Hræddur um pabba sinn

Börnin þeirra eru eins og fyrr segir fimm talsins. Yngsta barnið fimm mánaða og elsta barnið 10 ára. Hún segir að börnin hafi mismikinn skilning á því hversu hættulegt ástandið raunverulega var. Einn strákurinn hafi þó verið verulega hræddur um pabba sinn þegar hann bjargaði eignum fjölskyldunnar á meðan eldurinn geisaði.

„Elsta barnið hefur skilning á því hversu hættulegt þetta var en þau yngstu skilja það ekki. Þau urðu þó rosalega hrædd. Sex ára drengurinn var mjög hræddur um pabba sinn þegar hann fór í bílinn að ná í eignirnar.," segir hún.

Lífið heldur áfram

Árný hringdi á neyðarlínuna um leið en hún segir að viðbragðsaðilar hafi mætt á svæðið merkilega fljótt. Á meðan þau biðu úti og horfðu á bílinn brenna buðu ferðamenn á svæðinu börnunum sæti í ökutækjunum sínum til að hlýja þeim.

„Við erum þakklát fólkinu sem komu okkur til handar þarna upp frá. Það var ómetanlegt að fólk skyldi opna bílana sína og leyfa börnunum okkar að hlýja sér.“

Einn sjúkraliðinn í sjúkrabílnum sem Árný var send í starfaði einnig hjá Bílaleigu Akureyrar og bauð bílaleigan fjölskyldunni bíl til að komast heim. Hún og Brynjar segjast mjög þakklát bílaleigunni fyrir það, enda óumbeðið.

Spurð hvað taki við nú hjá fjölskyldunni segir Árný:

„Lífið heldur áfram. Nú þurfum við að finna okkur nýjan bíl. Með allan þennan her eru ekki allir bílar sem koma til greina,“ segir Árný hlæjandi að lokum.

Árný segir að leitin að nýjum bíl sé hafin.
Árný segir að leitin að nýjum bíl sé hafin. Ljósmynd/Aðsend



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert