Auðmenn leituðu að pólitísku skjóli

Össur Skarphéðinsson.
Össur Skarphéðinsson. mbl.is/Eyþór

Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi ráðherra, er í ítarlegu viðtali í sunnudagsblaði Morgunblaðsins. Þar segir hann að það hafi verið óheppilegt í ljósi síðari sögu þegar Samfylkingin fór á tímabili að tala með þeim hætti að hún skipaði sér í lið í hatrömmum átökum sem voru þá í gangi í viðskipta- og efnahagslífinu.

„Þessi átök voru á milli annars vegar ættarveldanna í Sjálfstæðisflokknum, sem við á Þjóðviljanum kölluðum í gamla daga ýmist kolkrabbann eða fjölskyldurnar fjórtán, og svo hins vegar nýríkra viðskiptavíkinga. Þeir höfðu á örfáum árum í kjölfar einkavæðingar bankanna safnað miklum auði og orðið mjög valdamiklir í efnahagslífinu. Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, gekk á þetta lið með hnútasvipum, og var sakaður um að misbeita pólitísku valdi til að þrengja að þeim á allan hátt,“ segir Össur.

Hann heldur áfram: „Þetta voru árin þegar Baugsveldið var til rannsóknar og allt lék á reiðiskjálfi í pólitíkinni út af því. Nýju auðmennirnir áttu það því sameiginlegt með þeim sem tengdust Ráðhúspólitíkinni að líta á Davíð sem drýsil með horn og hala og andstaðan við Sjálfstæðisflokkinn, sem ég hafði teiknað upp sem höfuðandstæðing okkar jafnaðarmanna, var persónugerð í Davíð. Það var líka nokkuð augljóst á þessum árum að þessi sveit leitaði eftir pólitísku skjóli hjá Samfylkingunni. Ég fór ekki varhluta af því þótt ég hefði sjálfur lent í illvígum, persónulegum deilum við Baugsveldið og sent þeim bréf, sem Styrmir lýsti – réttilega - sem „hatursfullu“ í Mogganum

Í Borgarnesræðunni, sem var eins konar hugmyndafræðilegur grunnur að þeim flokki sem Ingibjörg Sólrún vildi leiða, var svo málstaður Bónuss og Kaupþings, raunar fleiri fyrirtækja, tekinn upp gagnvart Davíð og út í frá túlkuðu því margir ræðuna þannig að flokknum hefði verið stillt upp þeirra megin á skákborðinu. Í kjölfarið, þegar bankahrunið brast á, og rannsóknarskýrslur röktu orsakir þess meðal annars til háttsemi einstaklinga sem tengdust þessum fyrirtækjum, þá reyndist erfitt fyrir flokkinn að verjast nafngiftinni „hrunflokkur“,“ segir Össur.

Ítarlegra viðtal er að finna í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins sem kom út í dag. 

Össur Skarphéðinsson.
Össur Skarphéðinsson. mbl.is/Eyþór
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert