Allt rússneskt orðið útlægt: Aukið kynfrelsi

Börkur Gunnarsson og Valur Gunnarsson vinna að gerð heimildarmyndar í …
Börkur Gunnarsson og Valur Gunnarsson vinna að gerð heimildarmyndar í Úkraínu nú um stundir. Ljósmynd/Kvikmyndaskóli Íslands

Börkur Gunnarsson, rektor Kvikmyndaskóla Íslands er nú staddur í Úkraínu við gerð nýrrar heimildarmyndar þar í landi.

Börkur segir sig ekki hafa verið áfjáðan til að komast aftur á átakasvæði áður en að kom að gerð myndarinnar.

Hefur reynslu af átakasvæðum

Börkur á reynslu að baki frá átakasvæðum í Bosníu, Írak og Afganistan. Hann taldi þeim kafla lífs síns lokið en margt í fréttaflutningi af stríði í Úkraínu fannst honum ófullnægjandi og kveikti spurningar sem hann langar til að svara. Ekki síst hvernig stríðið í Úkraínu hefur breytt menningarlífinu þar í landi.

Fyrstu niðurstöður þeirrar rannsóknar eru að Úkraínumenn hafa ýtt til hliðar öllu því sem rússneskt er. Stafsetningu hefur verið breytt þannig að hún sé sem mest úkraínsk. Úkraínskum höfundum líkt og Mikhalíl Búlgakov hefur verið ýtt til hliðar, þar sem hann þykir of rússneskur í hugsun og orði. Styttur af Katrínu miklu hafa verið teknar niður, eftir að ákvörðun um slíkt hefur verið tekin í íbúðarkosningum víðs vegar.

Aukið kynfrelsi

Börkur segir hið stóra afrek Pútíns vera það að nú hallast allir Úkraínumenn til vesturs. Áður en til innrásar Rússa kom hafi margir landsmenn vel getað hugsað sér að tengjast betur stjórnvöldum í Kreml. Nú sé öldin önnur og margir þeir sem hafa rússnesku sem móðurmál vilja ekkert af Rússlandi vita.

Úkraínumenn geri allt til að tengjast betur Vesturlöndum og siðum þeirra. Það má greina að kynfrelsi Úkraínu er meira en áður og samfélagið opnara fyrir öðrum samböndum en einungis gagnkynja.

Í fyrra mátti reykja alls staðar í Úkraínu en nú er búið að loka fyrir það víða á opinberum vettvangi eins og er til siðs í Vestur-Evrópu. Allar samræður um framtíðina er á þá bókina að tengjast vesturveldum enn fremur.

Var fyrst sem táningur í Sovétríkjunum

Þetta er alls ekki fyrsta heimsókn Barkar til Úkraínu. Hann kom þangað fyrst 18 ára gamall árið 1988, þegar Úkraína var lýðveldi í Sovétríkjunum sálugu. Þá fór hann bæði til Kænugarðs og Odessu en hafði lítinn grun að Sovétríkin yrðu að engu innan skamms.

Börkur gerir ráð fyrir að heimildarmyndin verði tilbúin til sýninga í haust.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert