Talað niður til kvenna á kirkjuþingi

Sólveig Lára Guðmundsdóttir.
Sólveig Lára Guðmundsdóttir. mbl.is/Eyþór

Séra Solveig Lára Guðmundsdóttir segir í viðtali við sunnudagsblað Morgunblaðsins að konur finni fyrir því á kirkjuþingi að viðhorfið til kvenpresta sé annað en viðhorfið til karlpresta.

„Biskup Íslands er kona og það hafa verið sagðir við hana hlutir, til dæmis innan þessa vettvangs, sem aldrei hefðu verið sagðir við karlkyns biskup. Þetta er ekkert sem hægt væri að kæra fólk fyrir, heldur óvirðing í orðavali sem bæði hún hefur orðið fyrir og mjög margar konur sem hafa setið á kirkjuþingi. Í 40 ár hefur maður búið við þetta andrúmsloft sem ekki er beint hægt að festa hönd á en maður finnur alltaf fyrir,“ segir Solveig Lára.

Hún segir ekki hafa orðið breytingu á þessu með yngri kynslóð karlmanna innan kirkjunnar. „Því miður erum við þarna með unga íhaldssama karlmenn sem hafa greinilega alist upp við þann hugsunarhátt að það megi tala niður til kvenna.“

Solveig Lára var á tímabili prestur Kvennaathvarfsins og hitti karlmenn sem beittu konur ofbeldi. „Þetta voru karlar af öllum þjóðfélagsstigum alveg upp … ég ætla ekki að nefna það. Það eru ekki bara einhverjir aumingjar sem berja konurnar sínar. Langflestir þessara karla komu mjög vel fyrir og voru svo sannfærandi að stundum lá við að ég tryði ég þeim þegar þeir sögðu að konan hefði dottið á klósettsetuna. En auðvitað áttaði ég mig snemma á því hversu færir þessir menn eru í að blekkja.“

Hún segir að prestar sjái margt skelfilegt í starfi sínu. „Það er skelfilegt þegar fermingarbörn manns svipta sig lífi, kannski nokkrum árum eftir ferminguna. Ungt fólk er að deyja í ópíóíðafaraldri og á prestastefnunni í vor höfðu prestar miklar áhyggjur af ástandinu því þeir eru að jarðsyngja 13-15 ára gamla krakka sem hafa dáið í þessum faraldri.“

Ítarlegra viðtal er að finna í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins sem kom út í gær.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert