Eldgosið við Litla-Hrút sem hófst á fimmta tímanum í dag er þegar farið að vekja athygli út fyrir landsteinana. Hafa miðlar í Bandaríkjunum, Bretlandi og á Norðurlöndunum fjallað um eldsumbrotin á Reykjanesskaga og eru þeir misdramatískir í frásögnum sínum.
Bandaríski fréttamiðillinn Bloomberg birti frétt hálftíma eftir að gos hófst og svo virðist sem íslenskur blaðamaður hafi skrifað fréttina.
Bandaríska dagblaðið Washington Post fjallar um gosið og segir í fyrirsögn sinni: „Gos er hafið í óbyggðum dal á suðvesturhorni Íslands."
Breski miðillinn Metro kýs smá ýkjur í sinni fyrirsögn en þar segir: „Risaeldfjall gýs í kjölfar skjálfta af stærðinni 5,2. Spýtir kviku.“
Flestir jarðfræðingar eru sammála um að gosið sé nokkuð lítið þó í því sé meiri kraftur en í síðasta gosi.
Fjölmiðillinn Reuters fjallar einnig um eldgosið. Fyrirsögnin þar er nokkuð einföld: „Íslenskt eldfjall gýs í grennd við höfuðborgina.“
Breski fjölmiðillinn Express er einnig með á nótunum og er með fyrirsögnina: Íslenskt eldfjall gýs nálægt höfuðborginni í kjölfar jarðskjálfta sem skók þjóðina.“
Frændur okkar í Danmörku gleyma okkur ekki og fjallar danski vefmiðillinn TV2 um gosið.
Svona er lengi hægt að telja áfram en tugir fréttamiðla um heim allan hafa fjallað um jarðeldana í einni eða annarri mynd.