Leiðtogar Atlantshafsbandalagsríkjanna eru á einu máli um að framtíð Úkraínu liggi í varnarbandalaginu, en á hinn bóginn var ekkert kveðið á um það í hve nálægri framtíð það gæti orðið, sem Úkraínumönnum þykir verra. Þetta kom fram á leiðtogafundi NATO í Vilníus, sem lýkur í dag.
„Ég held að í heilu tekið sé þetta mjög skýr útkoma fyrir Úkraínu, mjög einbeittur stuðningur við að hún gangi í NATO í fyllingu tímans,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í samtali við Morgunblaðið frá Vilníus.
„En meðan Úkraína á í stríði getur hún ekki gengið í NATO, svo það er erfitt að gefa upp nákvæmar tímasetningar.“
Katrín segir að mikil ánægja hafi ríkt á fundinum, ekki síst meðal Norðurlandaþjóða, um að innganga Svía í NATO hafi loks verið tryggð. Það breyti jafnframt stöðu Norðurlanda í álfunni.
„Þetta eru þær þjóðir sem við vinnum nánast með og viðbúið að við ræðum öryggis- og varnarmál meira í okkar hópi,“ segir Katrín.
Viðtalið við Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag, miðvikudag.