Stjórnvöld ekki nægilega vel búin undir gosið

Otti Rafn Sigmarsson, formaður Slysavarnarfélagsins Landsbjargar.
Otti Rafn Sigmarsson, formaður Slysavarnarfélagsins Landsbjargar. mbl.is/Sigurður Bogi

Slysavarnarfélagið Landsbjörg er óánægt með lakan viðbúnað stjórnvalda í tengslum við eldgosið við Litla-Hrút. Otti Rafn Sigmarsson, formaður félagsins, kallar eftir því að Landsbjörg verið leyst af störfum fyrr, sérstaklega þar sem erfitt sé að fá mannskap til að sinna sjálfboðaliðastörfum við gossvæðið.

„Við höfum þrýst á stjórnvöld að halda undirbúningi fyrir eldgos áfram á milli gosa og óskað eftir því að innviðauppbygging sé lengra komin þegar það byrjar að gjósa,“ segir Otti í samtali við mbl.is.

„Við erum að kalla eftir því að við verðum leyst af fyrr en hefur verið – að það komi landverðir og sjúkraflutningamenn sem standa vaktina þarna. Þannig getur okkar fólk haldið áfram að vera sjálfboðaliðar og sinnt verkefnum sem varða leit, björgun og slysavarnir.“

Björgunarsveitarfólk við gosstöðvarnar.
Björgunarsveitarfólk við gosstöðvarnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Erfitt að manna björgunarsveitina á sumrin

„Nú byrjar að gjósa á nýjan leik og við bregðumst þá við kallinu og að beiðni almannavarna sendum við okkar fólk upp eftir,“ segir hann en bætir við að það sé hægara sagt en gert að fá fólk í sjálfboðaliðastarf á þessum tíma árs enda sé björgunarsveitarfólk upp til hópa fjölskyldufólk og útivistarfólk.

„[Björgunarsveitarfólk] er nú bara í sumarfríi eins og flestir aðrir Íslendingar. Það er kannski búið að gera plön með sinni fjölskyldu sinni. Þannig það er erfitt að manna svona dagvinnuverkefni með sjálfboðaliðum.“

„Þessi tími er besti tími ársins og versti tími ársins, tekið tillit til veðurskilyrða og aðstæðna í landinu, þá er þetta bara frábær tími til að fara í göngu um þetta svæði.“

Fleiri landverðir á leiðinni

„Það er komin landvarsla og það var eiginlega nú þegar landvörður á svæðinu þegar gosið byrjaði,“ segir Sigrún Ágústsdóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar, en stofnunin auglýsti í gær eftir fleiri landvörðum til að starfa á gossvæðinu. Segir hún að umsóknir séu þegar byrjaðar að streyma inn.

Hún segir einnig að landvörður hafi komið frá þeim í dag og von sé á fleirum á morgun.

„Það eru mjög miklar annir í landvörslu og álag er í hámarki, þar sem það er gríðarlegur fjöldi ferðamanna á landinu,“ segir Sigrún. Landverðir hafi verið að bæta á sig vöktum en hún segir þó að það sé mikilvægt að gæta þess að draga ekki um of úr öryggi annars staðar á landinu.

Sigrún Ágústsdóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar.
Sigrún Ágústsdóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar. Ljósmynd/Stjórnarráðið
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert