Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus í íslenskri málfræði, tekur ekki undir áhyggjur Heiðars Guðjónssonar, fjárfestis og fyrrverandi forstjóra Sýnar, um slæm áhrif mikillar fjölgunar innflytjenda á íslenska menningu og tungu.
Þvert á móti telur prófessorinn áhyggjur fjárfestisins byggða á útlendingaandúð.
Heiðar var til viðtals í hlaðvarpsþættinum Skoðanabræðrum, þar sem hann ræddi meðal annars um vangetu sitjandi ríkisstjórnar til að taka á mikilvægum pólitískum málum. Taldi hann lækkandi fæðingartíðni á Íslandi, í bland við mikinn innflutning erlends vinnuafls, vera á meðal slíkra mála. Varaði hann við óafturkræfum áhrifum á okkar samfélag.
„Það þarf að skoða þetta núna vegna þess að íslensk menning og íslensk tunga er ástæða þess að ég er hérna. Það er það sem bindur mig við mína fjölskyldu og mína heimahaga og annað þvíumlíkt,“ sagði Heiðar.
Eiríkur fer hörðum orðum um viðtalið og segir m.a. dapurlegt þegar alið sé á útlendingaandúð undir formerkjum umhyggju fyrir íslenskunni og íslenskri menningu.
Í Facebook-hópnum málspjallinu gagnrýnir Eiríkur viðtalið og vitnar meðal annars í eftirfarandi orð Heiðars: „Þannig að ef við ætlum að leyfa þessari fólksfjölgun að eiga sér stað á þessum forsendum, að íslenska og íslensk menning sé ekki samnefnari heldur bara að þetta sé einhvern veginn alls konar, þá er útséð með íslenska þjóð. Ég er ekki að tala um Ísland fyrir Íslendinga, en bara þennan menningarheim sem við höfum búið í hérna í 1200 ár.“
Að sögn Eiríks hefur íslenski menningarheimurinn sannarlega ekki verið sá sami í þessi 1.200 ár.
„Hann hefur tekið stórkostlegum breytingum, fyrst og fremst vegna erlendra áhrifa – kristninnar um árið 1000, siðaskiptanna á 16. öld, danskrar stjórnar, bandarískrar hersetu, sjónvarps, nets o.s.frv.,“ skrifar Eiríkur og tekur fram að það sama eigi við um íslenskuna.
„[H]ún hefur líka orðið fyrir erlendum áhrifum á öllum tímum og ekki síst á 21. öldinni. En það er ekki bara, og ekki aðallega, vegna innflytjenda. Það er einnig og ekki síður vegna margvíslegra tækni- og samfélagsbreytinga síðustu árin. Hitt er vissulega rétt að miklir fólksflutningar til Íslands, sem og gífurleg fjölgun ferðafólks, gætu að óbreyttu sett stöðu íslenskunnar sem aðalsamskiptamáls í landinu í uppnám á næstu árum og þau mál er mikilvægt að ræða.“
Eiríkur segir jafnframt að ekki eigi að amast við fjölgun innflytjenda. Íslenskt samfélag þyrfti á þessu fólki að halda enda hafi fæðingartíðni hér lækkað og erfiðlega gengi að manna öll störf sem þyrfti að vinna.
„Það sem við þurfum að gera er að efla íslenskuna með stóraukinni kennslu í íslensku sem öðru máli og auka umburðarlyndi, bæði gagnvart „ófullkominni“ íslensku og gagnvart öðrum tungumálum. Enskan er komin til að vera, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Við þurfum hins vegar að sjá til þess að hún ýti ekki íslenskunni burt af ýmsum sviðum eins og hún er á góðri leið með. En þar er ekki við innflytjendur að sakast heldur íslenska atvinnurekendur sem hafa ekki metnað til að auglýsa á íslensku eða kenna starfsfólki sínu málið.“