„Ekki fært að standa hér úti nema með grímu“

„Ég fékk annan tankbíl og annan dælubíl í dag sem …
„Ég fékk annan tankbíl og annan dælubíl í dag sem og meiri mannskap,“ segir Einar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Einar Sveinn Jónsson slökkviliðsstjóri Slökkviliðs Grindavíkur segir að það gangi ágætlega að slökkva gróðureldana á gosstöðvunum við Litla-Hrút.

„Ég setti mér markmið í morgun og ég er að ná mínum markmiðum. Markmiðin voru ekki að slökkva alla gróðurelda. Þetta snýst um að minnka mengun frá þessu því ef vindátt snýst þá fer þetta yfir byggð sem við viljum alls ekki.“

Staðan tekin um framhaldið í nótt

Segir Einar svæðið við veginn og gönguleiðina vera það svæði sem mest sé verið að vinna á.

Mjög mikil mengun hefur verið á svæðinu að undanförnu. Hann segist sjá mun á því eftir daginn en ítrekar að það sé enn mikil mengun. „Það er ekkert fært að standa hér úti nema með grímu.“

Slökkviliðsmenn verða við vinnu á svæðinu eitthvað fram eftir kvöldi að sögn Einars og svo verður staðan tekin um framhaldið í nótt.

„Við fjölguðum svolítið í hópnum og fengum góða aðstoð frá Brunavörnum Suðurnesja. Við vorum með meira af tækjum og tólum í dag þannig að vinnan gekk hraðar fyrir sig. Ég fékk annan tankbíl og annan dælubíl í dag sem og meiri mannskap,“ segir Einar.

„Við gætum ekki gert þetta í opnu ástandi“

Það gengur ágætlega að koma bæði bílum og búnaði á gosstöðvarnar að sögn slökkviliðsstjórans sem hann segir helgast af því að gosstöðvarnar séu lokaðar gangandi vegfarendum.

„Við gætum ekki gert þetta í opnu ástandi, þá er ekki hægt að keyra veginn.“

Aðspurður um ástæðu meiri gróðurelda nú en í fyrri gosum segir Einar það skýrast af magni gróðursins. „Það er meiri gróður á þessu svæði og svo hefur ekki rignt hérna svolítið lengi og jarðvegurinn alveg skraufþurr og það er engin rigningaspá í kortinu,“ segir Einar sem myndi taka úrkomu fagnandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert