Tilkynnt var um mikinn „kynlífshávaða“ úr íbúð í fjölbýlishúsi í nótt. Í dagbók lögreglu kemur fram að tilkynnandinn hafi lýst því yfir að ekki væri svefnfriður í húsinu vegna þessa. Lögregla fór þá á vettvang og kannaði málið, en í dagbókinni koma ekki fram frekari upplýsingar um málalok.
Lögregla sinnti einnig útkalli vegna innbrots. Þegar tilkynnt var um innbrotið var innbrotsþjófurinn enn að verki, en þegar innbrotsþjófurinn varð húsráðandans var flúði hann af vettvangi. Lögregla svipaðist um í hverfinu en hafði ekki upp á viðkomandi.
Þá var tilkynnt um hávaða vegna tónlistar er barst frá skemmtistað. Lögregla fór á vettvang og ræddi við starfsfólk sem lofaði að lækka aðeins í tónlistinni.
Óskað var eftir aðstoð lögreglu vegna líkamsárásar í miðbænum. Önnur líkamsárás varð svo í umdæmi lögreglustöðvar 3, er tekur til Kópavogs og Breiðholts.