Slökkvistarf við gosstöðvarnar frestaðist í dag um tæplega fimm klukkustundir vegna banaslyss sem varð norðan við Hítará á Snæfellsnesi um miðjan dag í dag.
Blaðamaður mbl.is var á staðnum þar sem slökkviliðsmenn frá Suðurnesjum og Árnessýslu gerðu allt reiðubúið til að hefja slökkvistörf austan megin eldgosið við Litla-Hrút fyrr í dag.
Að sögn Einars Sveins Jónssonar, slökkviliðsstjóra Grindavíkurbæjar, voru um tuttugu slökkvimenn mættir á svæðið upp úr klukkan ellefu í dag til að ráða niðurlögum gróðurelda sem ollu mikilli reykmengun á svæðinu.
Upp úr klukkan tólf var þyrla Landhelgisgæslunnar á leiðinni á vettvang til að bera svokallaða bamba á svæðið en í hverjum bamba er tonn af vatni. Slökkviliðsmenn nota síðan vatnsdælur til að dæla vatni á gróðureldanna. Áður en að þyrla Gæslunnar var komin á vettvang var henni hins vegar snúið við og henni flogið í átt að Vesturlandi.
Blaðamaður og slökkviliðsmenn furðuðu sig á því að þyrlan skyldi halda á brott svo skyndilega. Skömmu síðar tjáði slökkviliðsmaður á svæðinu mbl.is að Landhelgisgæslunni hafi borist útkall og að þyrlan hafi þurft að fara annað til að sinna björgunarstörfum vegna slyss.
Umrætt slys reyndist síðan vera banaslysið við Hítará þar sem tvær bifreiðar skullu saman á Snæfellsnesvegi í hádeginu í dag. Þrír voru fluttir af vettvangi með þyrlu Landhelgisgæslunnar og þrír með sjúkrabifreið. Lögreglan á Vesturlandi rannsakar nú tildrög slyssins.
Þá hófst bið slökkviliðsmanna sem sátu aðgerðarlausir gegn gróðureldunum án vatnsins.
Blaðamaður mbl.is beið ásamt slökkviliðsmönnunum á meðan þeir gæddu sér á hádegisverði, sem ekið var á staðinn. Þeir neyddust þó til að færa sig þó nokkru sinnum vegna síbreytilegrar vindáttar sem blés reyk í áttina að þeim.
Nokkrir slökkviliðsmenn minntust á hve óheppilegt það væri að Landhelgisgæslan væri aðeins með eina þyrlu á sínum snærum til að sinna störfum sem þessum.
Að loknu björgunarstarfinu við Hítará hélt þyrla Landhelgisgæslunnar í átt að gosstöðvunum og var komin þangað um fjögur síðdegis. Þegar þyrlan var komin breyttist gír slökkviliðsmanna sem urðu önnum kafnir við að leysa bamba úr þyrlunni og dæla vatni á gróðureldanna.
Störf slökkviliðsmanna gengu vel og fumlaust fyrir sig í kjölfarið. Slökkviliðsmaður tjáði mbl.is að nú hæfist ákveðin færibandavinna. Satt reyndist enda barst nýr bambi með um tonni af vatni á nokkurra mínútna fresti.