Tapaði 1,3 milljónum

Landsbankinn hefur orðið var við mikla aukningu í sendingu svikaskilaboða …
Landsbankinn hefur orðið var við mikla aukningu í sendingu svikaskilaboða í nafni bankans. Ljósmynd/Landsbankinn

„Nú er háannatími í svikamálum. Í júlí hefur verið mikið um svik og ég er með 50 mál á minni könnu,“ segir Brynja M. Ólafsdóttir, sérfræðingur í regluvörslu Landsbankans, í samtali við mbl.is

Svikatilraunum á formi smáskilaboða í nafni Landsbankans hefur farið fjölgandi á síðustu vikum að því er fram kemur í tilkynningu frá Landsbankanum. 

Svikin fara þannig fram að fólk fær send fölsuð SMS-skilaboð í nafni Landsbankans. Í skilaboðunum er gefið til kynna að Landsbankinn hafi lokað og viðskiptavinum vísað á hlekk til að endurheimta reikning eða aðgang sinn.

10 mál síðan í síðustu viku

Komist svikararnir inn á netbanka viðskiptavina geta þeir nýtt sér t.d. kortaupplýsingar til að færa fé af reikningum fólks.

Fölsku skilaboðin leiða viðskiptavini inn á falskar innskráningarsíður.
Fölsku skilaboðin leiða viðskiptavini inn á falskar innskráningarsíður. Ljósmynd/Landsbankinn

„Ég er með 10 mál bara í síðustu viku þar sem viðskiptavinir féllu í gildru með því að smella á hlekk. Oft ná viðskiptavinir að átta sig á að ekki sé allt með felldu, eða þá að öryggiskerfi okkar skynji það og stöðvi svikatilraunina strax.“

„Í einhverjum tilvikum hefur fólk tapað tugum þúsunda vegna svikanna. Í alvarlegasta málinu tapaði viðskiptavinur 1,3 milljónum króna,“ bætir Brynja við.

Alþjóðlegur svikahópur

„Þessi svikahópur sem við eigum við núna rekur starfsemi sína erlendis frá. Við höfum fengið upplýsingar um að þessi sami hópur sé líka að herja á aðra banka á Norðurlöndunum. Fyrstu fölsku skilaboðin sem viðskiptavinir okkar sáu voru á dönsku, sem bendir til þess að hópurinn hafi fært starfsemi sína hingað frá Danmörku,“ segir Brynja.

„Við erum eins og er eini bankinn á Íslandi sem þessi svikahópur hópurinn herjar á, en ég tel að það sé bara tímaspursmál hvenær þeir færa sig yfir á aðra banka,“ bætir Brynja við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert