Útsýni skert eftir að gígbarmur brast

Gígbarmur í eldgosinu við Litla-Hrút brast þegar klukkan var tíu mínútur yfir fjögur í nótt að sögn Huldu Rósar Helgadóttur, náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofu Íslands.

Hraunið flæðir nú í vesturátt en gígurinn þarf að byggjast upp aftur til þess að hraun fari aftur að renna til suðurs.

Fólk sem fer eftir gönguleiðinni að skoða gosið stendur austan megin við það og eru því áhrifin af því að barmurinn hafi brostið helst þau að útsýni að hraunflæðinu skerðist.

„Fólk stendur þá ekki alveg við hinn virka hraunjaðar sem er vestan megin,“ segir Hulda.

Gosóróinn jókst aðeins í gærkvöldi og virtist vera aukin virkni í gosinu. Hann féll síðan niður um það leyti sem gígbarmurinn hrundi, að sögn Huldu.

Augnablikið þegar barmurinn brast

Eldfjalla- og náttúruvárhópur Suðurlands deildi myndbandi á Facebook í morgun af því þegar gígbarmurinn brast í nótt.

Myndbandið er unnið úr vefmyndavél RÚV og hraði þess þrefaldaður fyrir framsetningu, að því er segir í færslunni.
Gígurinn var orðinn myndarlegur áður en hann brast í nótt.
Gígurinn var orðinn myndarlegur áður en hann brast í nótt. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert