„Það er aldrei gripið til harðra aðgerða nema mikið liggur við og ég er ekki að sjá neitt þannig í kortunum núna. Við erum ekki að tala um neinn heimsfaraldur og þar af leiðandi engin slík viðbrögð,“ segir Sigríður Dóra Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga hjá heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, í samtali við mbl.is.
Már Kristjánsson, framkvæmdastjóri lyflækninga- og bráðaþjónustu, sagði í samtali við mbl.is í gær að fjöldi sýkinga og pesta sem nú gangi yfir komi nokkuð á óvart miðað við árstíma.
Sigríður telur að núverandi aðstæður kalli ekki á aðgerðir svipuðum þeim sem gripið var til í kórónuveiruheimsfaraldrinum. Fólk þurfi að gæta að sóttvörnum og bera ábyrgð á eigin heilsufari.
„Við ráðum ekki alltaf við það sem er í gangi og stundum þarf að grípa til harkalegri aðgerða heldur en við myndum vilja. Það er aldrei fyrsta val og á svo sannarlega ekki við að svo stöddu,“ segir Sigríður
„Ég tel að fólk þurfi alltaf að gæta að sóttvörnum. Smitvarnir eru náttúrulega ekki bara fyrir kórónuveiruna, heldur líka fyrir allar umgangspestir sem ganga yfir. Við eigum auðvitað alltaf að gæta að okkur og muna eftir handþvotti og spritti,“ segir hún.
„Það skiptir auðvitað miklu máli í öllum pestum að fólk sinni eigin heilsu og leggi rækt við að byggja upp sterkt ónæmiskerfi og lifi sínu lífi þannig að það geti tekist á við pestir,“ bætir Sigríður við.
Spurð um álag á starfsemi heilsugæslunnar í sumar segir Sigríður að starfsemin þurfi að aðlagast breyttum aðstæðum hverju sinni.
„Við finnum alltaf fyrir því þegar svona pestir ganga yfir. Á sumrin breytist starfsemi okkar með þeim hætti að við reynum helst að sinna bráðum erindum, það er okkar aðferð til að bregðast við sumarleyfum. Það hefur gengið ágætlega en þó er vissulega búið að vera mikið að gera í sumar.“
„Við minnum fólk eindregið á að hafa samband við heilsugæsluna í gegnum netspjall heilsuveru eða með því að hringja í síma 1700, svo hægt sé að meta málin áður en það kemur til okkar, því við getum ekki bara tekið óheft við fólki,“ bætir Sigríður við.
Sigríður tetur þörf á meiri tíma til að meta langtímaáhrif kórónuveirunnar á pestir og almennt heilsufar.
„Ég held að tíminn eigi eftir að leiða það betur í ljós. Við fundum mikið fyrir því í fyrravetur að við værum greinilega ekki nógu vel varin eftir faraldurinn. Varðandi langtímaáhrif tel ég að við þurfum að bíða og sjá betur hvernig þetta lendir allt saman,“ segir Sigríður.