Norsk lögregluyfirvöld hafa sent á lögmann Eddu Bjarkar Arnardóttur bréf, þar sem þeim er tilkynnt að norska lögreglan hafi sent beiðni til Íslands þess efnis að hún skuli vera handtekin og framseld til Noregs. Þetta kemur fram í facebook-færslu á vef Eddu Bjarkar.
Eins og mbl.is hefur áður fjallað um þá snýr málið að því að Edda nam á brott þrjá drengi sína frá suðurhluta Noregs til Íslands, í óþökk föðurins. Landsréttur staðfesti úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur fyrr á árinu um að synirnir skyldu teknir úr umsjá hennar og þeir færðir aftur til föður síns í Noregi. Hefur Edda þó kært niðurstöðu íslenskra dómstóla til Mannréttindadómstóls Evrópu.
Í bréfinu, sem hún birtir með færslunni, kemur fram að lögregluyfirvöld hafi ekki tekist að stefna henni til að mæta fyrir réttarhöld sem hafi átt að hefjast 9.-10. ágúst í Noregi og þar af leiðandi sé núna send beiðni til Íslands og óskað eftir því að hún verði handtekinn og framseld til Noregs. Einnig er sagt að betra væri bíða með réttarhöldin fram að september eða nóvember, eða viku 38, 39, eða 40 eins og það er orðað í bréfinu.
Edda Björk segir í færslu sinni að hún hafi verið samvinnufús og að aldrei hafi henni verið birt stefna.
„Málið er bara að það hefur aldrei verið reynt að birta mér stefnu og engin spurt hvort ég ætli að mæta eða ekki. Mjög einfalt að hafa samband við lögmenn mína líka og það hefur heldur ekki verið gert,“ segir í færslunni sem heldur áfram.
„Lögreglan úti óskaði eftir að skýrsla yrði tekin af mér á Íslandi, lögreglan hérna hafði samband við mig og óskaði þess og ég mætti strax næsta dag. Svo ekki hafa þeir haft slæma reynslu ef þeir bara biðja.“
Edda nam drengina á brott þegar þeir voru á leið heim úr skóla og fór með þá til Íslands, en þeir hafa búið hjá íslenskum föður sínum í Noregi sem fer einn með forsjá þeirra. Samkvæmt norskum dómsúrskurði má móðirin aðeins hitta drengina undir eftirliti fjórum sinnum á ári, fjórar klukkustundir senn og þau skulu tala saman á norsku.