Fjórhjóla,- og buggýklúbburinn Melrakkar kláruðu fyrr í vikunni sína fimmtu ferð horn í horn þvert yfir Ísland. Guðbergur Reynisson, formaður Melrakka, segir í samtali við mbl.is að það sé ævintýraþráin og tengslin við náttúruna sem drífi þau af stað í svona langar ferðir.
Fimmtán manns á tólf ökutækjum lögðu leið sína frá gamla vitanum á Reykjanestá yfir á Fontinn á Langanesi í vikulangri ferð sem kláraðist síðastliðinn þriðjudag.
Ferðuðust þau um landið á fjórhjólum og buggý bílum og er lagt mikið upp úr því að ferðast aðallega á gömlum slóðum og malarvegum. spurður út í ævintýri ferðarinnar segir Guðbergur að þau hafi verið nokkur.
„Við vorum að lenda í allskonar ævintýrum. Við vorum að slíta drifreimar og standandi úti í grenjandi rigningu á Dettifossvegi að laga það,“ segir Guðbergur hlæjandi en heldur svo áfram.
„Það var samt alveg magnað augnablik þegar við vorum að keyra gæsavatnaleiðina og við vorum að koma í gæsavatnaskála. Þá sáum við óveðurskýin myndast og nálgast mann og svo sér maður þau tæmast þannig við rétt sluppum við rigninguna. Þegar maður er í svona opnu ökutæki þá er maður einhvern veginn í tengslum við náttúruna og og kraftarnir í henni eru alveg ótrúlegir.“
Melrakkar fara þó í töluvert fleiri styttri ferðir á ári og eru félagsmenn nú orðnir 160 talsins.
„Upprunalega voru þetta bara nokkrir félagar en nú er þetta orðið 160 manna félag sem ferðast um landið,“ segir hann.
Í svona langferð er fólk ekki hangsandi í símunum og er þetta því fullkomið tækifæri til að jarðtengja sig. Hann segir ökumenn eiginlega hafa gleymt því að það væri eldgos í Litla-Hrút.
„Þetta er frábært tækifæri til að hlaða batteríin. Ert símasambandslaus mest alla ferðina og aftengdur umheiminum. Þú ert bara þarna í góðum félagsskap með sjálfum þér og hjólinu. Þegar við komum til baka á Litlu kaffistofuna þá föttuðum við að það væri enn gos í gangi,“ segir hann og hlær.
Að lokum segir Guðbergur að aðalatriðið sé ferðalagið, ekki áfangastaðirnir.
„Oft þarf að breyta til og fara aðrar leiðir. Þetta snýst um góðan félagsskap, ferðalag í opinni náttúru á góðu fjórhjóli eða buggý og ævintýraþrá. Ísland er ótrúlega fallegt og ýmislegt sem leynist sem maður sér ekki né upplifir nema maður fari út og finni það.“