„Það er náttúrulega alltaf alvarleg staða þegar mörgum er sagt upp en á sama tíma geri ég ráð fyrir að þessir starfsmenn verði ráðnir hjá þeim rekstraraðila sem mun sigla ferjunni. Röst mun verða siglt frá 15. október.“
Þetta segir Jakob Björgvin Sigríðarson Jakobsson, bæjarstjóri Stykkishólmsbæjar, í samtali við mbl.is. Öllum 22 starfsmönnum Sæferða í Stykkishólmi, sem reka Breiðafjarðarferjuna Baldur, var sagt upp störfum á þriðjudag þar sem óvissa ríkir um áframhaldandi rekstur.
Sæferðir reyndust vera eini þátttakandinn í útboði Vegagerðarinnar vegna reksturs nýju ferjunnar. Jakob segir mikilvægt að tryggja samfellu í ferjuþjónustu og að Sæferðir og Vegagerðin nái sanngjarnri niðurstöðu í málinu sem fyrst.
„Þessi óvissa er náttúrulega afskaplega óheppileg fyrir starfsmenn.“
Miðað við niðurstöðu útboðsins telur Jakob tvennt vera í stöðunni. Annað hvort náist samningar milli Sæferða og Vegagerðarinnar eða að Vegagerðin taki að sér rekstur nýju ferjunnar.
Hefur þú áhyggjur af þeirri stöðu sem nú er uppi?
„Ég hefði kosið að útboðið hefði verið framkvæmt fyrr þannig að við hefðum fengið þessa niðurstöðu í apríl-maí þannig að þá hefði verið meiri fyrirsjáanleiki. Þetta virðist svo sem vera að lenda, þetta mál,“ segir Jakob og bætir við að nýja ferjan sé væntanleg til landsins í september.
„Þá trú ég því að það verði búið að leysa úr þessum málum og eyða þessari óvissu.“
Hann segir uppsagnirnar í raun ekki hafa komið sér á óvart í ljósi þess að tilboð Sæferða hafi verið 60% yfir kostnaðaráætlun.
„Í rauninni er um að ræða varúðarráðstöfun af þeirra hálfu.“
Hefði útboðið verið í framkvæmt í vor hefði hugsanlega aldrei þurft að koma til uppsagna og starfsfólkið þar með ekki þurft að upplifa óvissuna.
„Það er kannski það sem mér er mest umhugað um, starfsfólkið, því að ég hef ekki trú á því að þetta muni hafa nein áhrif á þjónustuna.“
Jakob gerir ráð fyrir því að starfsfólkinu verði boðið starf á nýju ferjunni, hver sem rekstraraðilinn verði.