Súr sorplykt og viðbjóður ekki neinum til sóma

Jóni finnst að Sorpa og Endurvinnslan geti gert betur.
Jóni finnst að Sorpa og Endurvinnslan geti gert betur. Samsett mynd

Leik­ar­inn og grín­ist­inn Jón Gnarr er allt annað en sáttur með flöskumóttöku Sorpu í Ánanaust í Reykjavík. Hann er bæði ósáttur við sóðaskap í móttökunni og aðstöðunni sem má muna fífil sinn fegurri.

„Þetta er eins og að fara ofan í ruslagám – súr sorplykt og viðbjóður. Þetta er ekki neinum til gagns eða sóma.“ 

Svona lýsir Jón ferð sinni með flöskur og dósir í endurvinnslu á miðvikudaginn, við blaðamann mbl.is.

Ekki þrifið í lok dags

„Þetta á að vera hvati fyrir fólk að henda ekki flöskum og dósum í ruslið heldur að safna því í sérstaka poka og koma með þetta á móttökustöð. Það á að vera einhver svona ánægjuleg aðgerð, en mér finnst þetta oft vera búið að vera sóðalegt þegar ég hef komið þarna,“ segir Jón.

Hann segist áður hafa haldið að það sé svo mikið að gera í móttökunni að rusl sé fljótt að fyllast og umgengni eftir því.

„Svo kem ég þarna strax og opnaði og það hafði ekkert verið tæmt ruslið eða þrifið þarna. Mér finnst þau geta gert betur en þetta,“ segir Jón.

Hann segir frá upplifun sinni á Facebook og segir þar lyktina hafa verið ólýsanlega og sóðaskapinn eftir því. Gólfið hafi verið klístrað og skítugt og allar ruslatunnur yfirfullar, þrátt fyrir að hann hafi líklega verið fyrsti viðskiptavinur dagsins.

„Vaskurinn sem er hafður merkilega lítill er einn sá ógeðslegasti …
„Vaskurinn sem er hafður merkilega lítill er einn sá ógeðslegasti sem ég hef séð og hvorki boðið upp á sápu, þurrkur eða hvað þá spritt,“ segir Jón. Ljósmynd/Jón Gnarr

Í alla staði óvinsamlegt

Auk sóðaskaparins segir Jón aðbúnað í flöskumóttökunni vera slæman og að hann afi verið slæmur lengi.

„Það eru einhverjir skjáir þarna við þessi færibönd sem telja dósirnar. Það er búið að vera bilað örugglega í svona fimm ár,“ segir Jón.

„Þetta er í alla staði óvinsamlegt. Þetta er ekki eitthvað sem er hlýlegt eða bjóðandi eða á nokkurn hátt skemmtilegt, þetta er bara viðbjóður.“

Jón segir vélarnar sem telja dósirnar og flöskurnar bara geta tekið einn hlut í einu því ef fleiri flöskur fara á færibandið þá detti þær af.

„Þetta er rekið af sömu hugmyndafræði og ÁTVR var rekið hérna í gamla daga: „Þú skiptir engu máli og við komum fram við þig eins og okkur sýnist“. Þetta er nákvæmlega þessi hugmyndafræði sem ég hélt að heyrði fortíðinni til hérna á Íslandi, en greinilega ekki,“ segir Jón.

Rusl hafði ekki verið tæmt þegar Jón kom við opnun.
Rusl hafði ekki verið tæmt þegar Jón kom við opnun. Ljósmynd/Jón Gnarr

Umtalsverður hagnaður Endurvinnslunnar

„Það er einkafyrirtæki sem á veg og vanda að þessu sem heitir Endurvinnslan og Sorpa er að gera þetta í rauninni fyrir Endurvinnsluna.

Mér finnst Endurvinnslan vera fyrirtæki sem ætti aðeins að hysja upp um sig og gera bragabót á sínum móttökustöðvun og sínu þjónustuviðmóti. Sérstaklega þegar ársskýrslur Endurvinnslunnar sýna umtalsvert mikinn hagnað af því að fólk er að dröslast með dósir til þeirra,“ segir Jón að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert