Helga Hlín Hákonardóttir var eini frambjóðandinn sem náði kjöri í stjórn Íslandsbanka í gær án þess að hafa fengið tilnefningu frá Bankasýslu ríkisins eða tilnefningarnefnd Íslandsbanka. Hún telur aðkallandi að umræða um hæfnismat tilnefningarnefndar fari fram.
Sjö voru kjörnir í stjórn bankans í gær, en ellefu voru í framboði. Alls voru sjö tilnefndir af tilnefningarnefnd og Bankasýslunni.
Að sögn Helgu Hlínar hafði Gildi lífeyrissjóður, sem er annar stærsti hluthafi Íslandsbanka, samband við hana fyrir nokkrum vikum og bað um að fá að leggja framboð hennar til við tilnefningarnefnd.
Nefndin óskar eftir umsóknum til stjórnar og metur þær svo. Að lokum tilnefnir hún fjóra aðila ásamt þremur aðilum sem tilnefndir eru af valnefnd Bankasýslunnar. Helga Hlín varð ekki fyrir vali nefndarinnar.
„Þær skýringar sem mér og næst stærsta hluthafanum voru gefnar voru að þau viðmið sem notuð eru vegna samsetningar á þekkingu og reynslu stjórnar gerðu bara ráð fyrir einum lögfræðingi, sem er það einmitt það próf sem ég hef þótt svo að ég hafi mjög fjölbreytta starfsreynslu. Þegar það lá síðan fyrir að Bankasýslan tilnefndi lögfræðimenntaðan aðila, þá ruddi það út mínum möguleikum á að koma til greina í stjórnina. Því var mín tilnefning ekki meðhöndluð frekar,“ segir Helga Hlín.
Sá lögfræðimenntaði einstaklingur sem Bankasýslan tilnefndi er Haukur Örn Birgisson, eigandi og framkvæmdastjóri Íslensku lögfræðistofunnar.
Helga Hlín bendir á að þrátt fyrir að þau séu með sömu menntun sé starfreynslan þeirra mjög ólík. Hún hafi ekki verið í málflutningi líkt og Haukur, en Helga Hlín er meðeigandi og ráðgjafi hjá Strategíu ráðgjafafyrirtæki sem veitir fjárfestum, stjórnum og stjórnendum ráðgjöf. Hefur hún starfað við það í rúman áratug, en þar á undan stafaði hún sem framkvæmdastjóri og ráðgjafi í fjármálageiranum.
Að sögn Helgu Hlínar var hún hvött til að gefa kost á sér þrátt fyrir að hún hafi ekki fengið tilnefningu frá nefndinni.
„Hér stend ég og greinilega breiður hópur hluthafa sammála mér í því að ég hafi eitthvað til brunns að bera og geti fært virðisauka í störf stjórnarinnar,“ segir Helga en hún hlaut mestan stuðning þeirra frambjóðenda sem ekki voru tilnefndir af Bankasýslunni.
Í störfum sínum sem ráðgjafi hefur Helga Hlín unnið með tilnefningarnefndum. Hún segir að útfærsla á samsetningu stjórna geti verið breytileg hverju sinni og telur aðkallandi að umræða um störf tilnefningarnefndar Íslandsbanka og tilnefningarnefnda almennt fari fram.
„Ég held að það sé mjög aðkallandi að það verði tekin góð umræða um hvaða þekkingu og reynslu er æskilegt að fá inni stjórn. Sú umræða þarf að fara fram á breiðum grundvelli. Þegar hluthafar koma fram með sjórnarmið, eins og næst stærsti hluthafinn í Íslandsbanka gerði varðandi mína þekkingu og reynslu á sviði stjórnarhátta, þá ætti það að skila sér inní útfærslu á samsetningu stjórnar,“ segir Helga Hlín og bætir við að jafnvel ætti að birta svokallaða matrixu þar sem hæfniskröfur eru gerðar og heimfærðar upp á einstaka frambjóðendur til stjórnar og sýna þá hvernig þeir eru metnir út frá henni.
„Það hefðu þá fengist skýringar á því hvers vegna ég hlaut ekki náð fyrir augum tilnefningarnefndar. Þannig geta hluthafar síðan tekið sjálfstæða afstöðu til þess hvort þeir séu sammála tillögum nefndarinnar eða ekki. Það gerðu þeir með mjög eindregnum hætti enda hlaut ég lang mestan stuðning þeirra frambjóðenda sem ekki voru tilnefndir og studdir af Bankasýslunni. Það er frábær staðfesting á því að við erum hér með hóp virkra hluthafa sem taka upplýstar og sjálfstæðar ákvarðanir,“ segir Helga Hlín.
Strax eftir hluthafafundinn í gær fundaði ný stjórn og er ljóst að verkefni nýrrar stjórnar eru krefjandi. Helga Hlín telur þó mörg tækifæri vera til staðar.
„Það er mjög krefjandi verkefni fram undan en í þeim felast fjölmörg tækifæri líka. Allar krísur og erfiðleikar skapa einhvers staðar tækifæri. Mín reynsla er sú að oft er það versta sem kemur fyrir mann á endanum það besta í kjölfar þess lærdóms sem maður getur kosið að draga af þeim. Þannig bætir maður sig, og nær lengra áfram og enn hærra upp.
Ég held að það sé nákvæmlega staðan hjá Íslandsbanka. Það eru allir meðvitaðir um það sem er búið að eiga sér stað og allir á einu um hvert á að stefna. Ég held að viljinn til að gera enn betur sé klárlega til staðar hjá öllum.“