Þolinmæðin á þrotum: „Miklar ógöngur“

Samsett mynd

„Samstarfið er komið í miklar ógöngur og það blasir við öllum að áfram verður ekki haldið að óbreyttu. Við finnum fyrir vaxandi óþreyju í okkar flokki víða um land.“

Þetta segir Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, spurður um viðbrögð gagnvart viðtali við Brynjar Níelsson sem birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Brynjar lét af störfum sem aðstoðarmaður Jóns í júní er Guðrún Hafsteinsdóttir tók við sem dómsmálaráðherra. 

Brynjar sagði í viðtalinu að hann óttaðist klofningu innan Sjálfstæðisflokksins. Spurður hvort að hann sé á sömu skoðun og fyrrverandi aðstoðarmaður sinn svarar Jón því neitandi og segir ágreining ríkisstjórnarinnar aðeins fá menn til að standa þéttar saman innan flokksins.

„Mér finnst ákall félaga míns heldur verða til þess að borgaralega sinnað fólk í þessu landi þurfi að bíta í skjaldarrendur og sameina okkar krafta við þessar aðstæður. Ég hef ekki áhyggjur af klofningi í Sjálfstæðisflokknum.“

Langt á milli flokka

Jón segir orð Brynjars endurspegla það sem hann hefur áður sagt. Hann telur ríkisstjórnarsamstarfið vera orðið mjög erfitt og langt á milli flokka í ýmsum málum. 

„Það finnst öllum á sig hallað. Brynjar er auðvitað bara að endurspegla viðhorf margra í Sjálfstæðisflokknum.

Það er vaxandi óþreyja almennt í flokknum gagnvart því að við skulum ekki koma ákveðnum málum áfram,“ segir hann og nefnir sem dæmi útlendingamál, orkumál og löggæslumál.

Formenn stjórnarflokkanna.
Formenn stjórnarflokkanna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Komið í bakið á samstarfsflokkum

Hann segir litla þolinmæði vera eftir hjá Sjálfstæðisflokknum gagnvart ríkisstjórnarsamstarfinu. Nefnir hann ákvörðun Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra um að stöðva tímabundið hvalveiðar degi áður en veiðar áttu að hefjast sem dæmi um eitt af þeim málum sem grafi undan trausti innan ríkisstjórnarinnar. 

„Þetta eru slík grundvallarmál í stefnu Sjálfstæðisflokksins að það er orðin ansi lítil þolinmæði eftir í svona málum. Hvalveiðimálið var rætt við stjórnarmyndunina og því var hafnað af Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum að hvalveiðar yrðu bannaðar og svo er komið algjörlega í bakið á fólkinu sem átti að vinna við þetta og samstarfsflokkunum pólitískt.

Ef við rekjum þau mál sem hafa drifið á daga þessa ríkisstjórnarsamstarfs undanfarið og lyktir þeirra mála blasir auðvitað við öllum að við erum í tómum ógöngum í þessu í dag og það þarf einhver stórkostleg breyting að verða, svo við getum sinnt þeim skyldum okkar að búa sómasamlega um hnútana í þessu samfélagi okkar til framtíðar.“

Margt óuppgert 

Spurður hvort lítið þurfi til svo að ríkisstjórnin falli segir Jón:

„Ég held að það sé margt óuppgert sem hefur drifið á daga okkar frá því að þinginu lauk. Í þessu kristallast munurinn á stefnu okkar og VG sérstaklega. Það er alveg ljóst að í mörgum af þessum málaflokkum liggja stefnur Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins meira saman.“

Þurfi að horfa til uppstokkunar

Hann segir ómögulegt að spá fyrir um það hvort að ríkisstjórnarsamstarfið lifi næsta þingvetur af. Hann segir merg málsins vera að samfélagið sé á tímamótum hvað varðar mörg stór mál og að hann sjái ekki fram á það að ríkisstjórnin geti tekist á við þau verkefni í sameiningu. 

„Þá er auðvitað ekkert annað að gera en að horfa til einhverjar uppstokkunar á því. Það er óásættanlegt fyrir samfélagið að það sé stöðnun í svo stórum og mikilvægum málum. Það verður að móta stefnu sem hægt er að fylgja eftir.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert