„Það er engin nýlunda að íhaldsarmurinn fari reglulega í svona ákveðna fýlu. Ég er búin að upplifa það áður.“
Þetta sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, á Sprengisandi í dag um þann pirring sem nú virðist ríkja innan Sjálfstæðisflokksins vegna samstarfs hans við Vinstri græna í ríkisstjórn.
Í viðtali sem birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins sagði Byrjar Níelsson, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, að hann óttist að flokkurinn klofni þar sem mikil óánægja sé með störf flokksins í ríkisstjórn.
Í kjölfar viðtalsins ræddi mbl.is við nokkra þingmenn flokksins. Þeirra á meðal var Ásmundur Friðriksson en hann sagðist telja ríkisstjórnina vera komna að ögurstundu.
Þorgerður Katrín var þingmaður Sjálfstæðisflokksins á árunum 2003-2013 og segir hún gott að hennar gömlu félagar séu að átta sig á því að þeir séu í vinstristjórn.
„Auðvitað finnst mér gott að Sjálfstæðisflokkurinn er núna loksins að vakna til vitundar um að hann er einfaldlega hluti af vinstristjórn. Hann er að horfast í augu við það. Þess vegna eru mínir gömlu vinir í Sjálfstæðisflokkum núna að reyna að rifja upp að eitt sinn þá voru þeir atvinnulífsflokkur.“
Umræða þáttarins var borgaraleg gildi og þá hvernig í raun ætti að skilgreina þetta hugtak, en deilt hefur verið um inntak hugtaksins.
„Þessi umræða sem að íhaldsarmur í samfélaginu er að reyna draga fram, hvort sem að það er á grunni borgaralegra gilda eða almennrar vanlíðan Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn þá tengist þetta líka því að hluti íhaldsins er pirrað. Inn í þetta spilast, að mínu mati, brostnar vonir og væntingar einstaklinga við það að verða ráðherra eða þingmenn og þeir hafa síðan ekki náð frama,“ sagði Þorgerður Katrín.