Þyrlur lentu inni á bannsvæði uppi á Litla-Hrút

Tvær þyrlur lentu inni á bannsvæði og skilgreindu hættusvæði á …
Tvær þyrlur lentu inni á bannsvæði og skilgreindu hættusvæði á fjallinu Litla-Hrúti í gærkvöld. Myndin tengist fréttinni ekki beint. mbl.is/Árni Sæberg

Tvær þyrlur lentu inni á bannsvæði og skilgreindu hættusvæði á fjallinu Litla-Hrúti í gærkvöld. Í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum segir ömurlegt til þess að vita að einstaka flugmenn hagi sér með þessum hætti.

Í samtali við mbl.is segir Birgir Haraldsson, framkvæmdastjóri Norðurflugs, að ekki hafi verið um þyrlur fyrirtækisins að ræða. 

Þá reyndi erlendur ferðamaður svifvæng sinn þegar hann lét sig húrra fram af fjallinu og mátti litlu muna að illa færi, segir í tilkynningunni. 

Opið er inn á gossvæðið við Litla-Hrút frá Suðurstrandarvegi í dag en gönguleiðum verður lokað kl. 18 líkt og undanfarið. 

Í tilkynningunni segir að lokunin hafi gengið vel í gær en nokkrir ferðamenn hafi þurft á aðstoð að halda eins og aðra daga.

Flestir sýna því skilning að aðgangur inn á gossvæðið sé háður takmörkunum en að mati lögreglustjóra er ekki forsvaranlegt að halda gönguleiðum opnum allan sólarhringinn.

Spá veðurvaktar um gasdreifingu gerir ráð fyrir 5-10 metrum á sekúndu í dag og að gosmengunin berist til suðurs og suðausturs.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert