Dagur B. Eggertsson reyndi fyrir sér við sorphirðu í Árbænum í dag.
Frá þessu greinir hann á Facebook.
Segir hann að þar hafi gamall draumur ræst, því sem ungur maður hafi hann sótt um vinnu hjá Sorphirðu Reykjavíkur, en ekki fengið.
Tilviljun hafi svo ráðið því að fyrsti stigagangurinn sem tæmdur var hafi verið uppeldisstöðvar borgarstjóra í Hraunbæ 100.
„En þetta var mjög skemmtilegur morgun og áhugaverður og gaf innsýn í hinar miklu breytingar sem flokkun og sorphirða í borginni er að ganga í gegnum. Þar þurfum við borgarbúar öll að taka þátt og starfsfólk sorphirðunnar lætur sannarlega ekki sitt eftir liggja, þrátt fyrir einhverja byrjunarörðugleika.”
Byrjunarörðugleikarnir sem borgarstjóri vísar í hafa meðal annars birst borgarbúum í formi yfirfullra grenndargáma í hverfum borgarinnar, sem mikið hafa verið til umræðu.