Regnbogafánar skornir niður í skjóli nætur

Regnbogafánar Orkunnar voru skornir niður af flaggstöngum í skjóli nætur.
Regnbogafánar Orkunnar voru skornir niður af flaggstöngum í skjóli nætur. Ljósmynd/Orkan

Regnbogafánar sem dregnir voru að húni við bensínstöð Orkunnar við Öskjuhlíð voru skornir niður í skjóli nætur í gærnótt.

Þetta er annað árið í röð sem slíkt atvik á sér stað en markaðsstjóri Orkunnar, Brynja Guðjónsdóttir, segir fyrirtækið halda ótrautt áfram að flagga fánunum og fagna Hinsegin dögum.

„Okkur þykir mjög leitt að þetta sé staðan, að það sé verið að skera niður fána, en við styðjum við hinsegin baráttuna og erum að setja upp fána aftur þar sem var skorið niður,“ segir Brynja. 

Gerandinn náðist á mynd

Regnbogafánum er flaggað við allar 72 bensínstöðvar Orkunnar, við hlið fána fyrirtækisins. Það var því kýrskýrt í morgun að um var að ræða skemmdarverk við stöðina í Öskjuhlíð þar sem fánar Orkunnar blöktu enn.

Brynja segir gerandann hafa náðst á mynd og að málið sé nú komið í ferli hjá Orkunni og verður málið tilkynnt til lögreglu.

Hún segir fánunum flaggað í samráði við skipuleggjendur Hinsegin daga og að fyrirtækið hafi ráðfært sig við skipuleggjendur um hversu lengi fánunum skuli flaggað.

„Við höldum bara áfram að setja upp fána, ekki spurning. Við styðjum við málefnið og vinnum með Hinsegin dögum. Við flöggum út ágúst og ef eitthvað er skorið niður þá setjum við upp aftur.“

Dagskrá Hinsegin daga má finna hér

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert