„Af hverju í ósköpunum mega börn ekki vita eitthvað um Jesúm Krist? Af hverju er það svona hættulegt? Menn þurfa að svara þeirri spurningu. Við búum í samfélagi þar sem fólk notar nafn hans stanslaust. Hvaða skynsemi er í því að það sé numið brott úr kennslu í skólum eða samfélaginu?“ segir Kristrún Heimisdóttir, fyrsti varaforseti kirkjuþings, í viðtali í sunnudagsblaði Morgunblaðsins.
Kristrún, sem vill aukna fræðslu um kristni, segir stórhættulegt hvernig skoðanalöggur haldi umræðunni í heljargreipum.
„Þess vegna er svo margt sem erfitt er að ræða; allt frá íslenskri tungu yfir í kristindóminn og allt þar á milli. Þegar við bætist að fjölmiðlum fækkar þá verðum við að tala og tala hátt og ekki láta þessa skoðanakúgun stjórna umræðunni,“ segir hún.