Partýstand, þjófnaður og skammbyssu-kveikjari

Nóg var að gera.
Nóg var að gera. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Frá klukkan 17 í gær til 10 í morgun voru 110 mál skráð hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og eru allir fangaklefar í Hverfisgötu fullir. Tilkynnt var um einstakling með hugsanlegt skotvopn við Alþingishúsið og töluvert var um partýhávaða og ölvun.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglu.

Fram kemur að einstaklingurinn sem talinn er hafa verið með skotvopn við Alþingishúsið hafi í raun verið með kveikjara sem var „eftirlíking af skammbyssu.“ Hann hafi verið handtekinn í kjölfarið og fluttur á lögreglustöð.

Þar að auki hafi lögreglu borist tilkynningar um eignaspjöll, fimm voru teknir við hraðakstur, fjórir teknir við stýri undir áhrifum, einn sviptur ökuréttindum og tvö umferðarslys skráð.

Þá barst lögreglu tilkynning um farsímaþjófnað úr starfsmannarými á veitingastað í miðborginni.

„Gerandi fannst seinna eftir ábendingu góðborgara. Gerandi handtekinn og á lögreglustöð fannst einnig hnífur á aðilanum. Málið klárað eftir hefðbundnu ferli,“ segir í dagbók lögreglu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert