Færeyingar banna rafskútur

Eyþór Máni Steinarsson, framkvæmdastjóri Hopp ehf., bíður framsækinnar ríkisstjórnar í …
Eyþór Máni Steinarsson, framkvæmdastjóri Hopp ehf., bíður framsækinnar ríkisstjórnar í Færeyjum. Samsett mynd

Dennis Holm, samgönguráðherra Færeyja, hyggst leggja frumvarp til laga fyrir Lögþing Færeyja í samgöngumálum. Í frumvarpinu er lagt blátt bann við notkun rafskútna í Færeyjum, samkvæmt frétt Dimmalætting.

Mbl.is hefur áður fjallað um deilur Hopp við færeysk yfirvöld og heyrði nú í Eyþóri Mána Steinarssyni, framkvæmdastjóra Hopp ehf. vegna nýju lagasetningarinnar.

Fjölbreyttari ferðamáti frekar en boð og bönn

„Þetta er leiðinlegt að sjá, sérstaklega á tímum þegar maður hefði haldið að fólki væri gefinn kostur á fjölbreyttum samgöngumáta, frekar en að setja boð og bönn.“

Eyþór telur rafskútur geta verið ferðamáta sem henti einkar vel í Þórshöfn og víðar á Færeyjum, þar sem nú sé treyst mikið á einkabílinn.

„Við bjuggumst ekki við því að þetta yrði bannað alfarið. Það er að sjálfsögðu ekki niðurstaðan sem við óskuðum eftir. Það er staðföst trú okkar að fleiri samgöngumátar en einkabíllinn séu fýsilegir. Færeyjar eru ósammála okkur.“

Færeyjar verði einsdæmi í heiminum

Eyþór telur eðlilegt að sett séu lög og reglur um rafskútur, líkt og á Íslandi. Við slíka lagasetningu séu hagsmunaaðilar kallaðir að borðinu. Það hafi aldrei verið í Færeyjum og niðurstaðan sé blátt bann. Eyþór telur að Færeyjar verði þá einsdæmi í heiminum að banna rafskútur alveg. Bann sé vissulega við lýði í Bretlandi en það sé vegna þess að þær falli inn í eldri löggjöf um vélknúin hjól og svipað sé uppi á teningnum í Hollandi. Það að setja algerlega ný lög með þeim eina tilgangi að banna rafskútur, sé hins vegar einsdæmi.

Hann segir bannið ekki vera mikið högg fyrir Hopp, þar sem þessi starfsstöð í Færeyjum séu bara ein af fimmtíu starfsstöðvum fyrirtækisins. Í raun hafi starfsemin aldrei farið almennilega af stað þar, en hún stóð aðeins í nokkrar vikur, nokkrum sinnum.

„Við munum halda áfram að berjast fyrir rafskútum og þegar það kemur framsæknari ríkisstjórn í Færeyjum munum við taka málið upp að nýju og fá þessu breytt,“ segir Eyþór Máni Steinarsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert