„Þessum slysum virðist því miður ekki vera að fækka,“ segir Hjalti Már Björnsson, yfirlæknir bráðadeildar á Landspítala um slys vegna rafhlaupahjóla.
Nú sé hafin nákvæm skráning á fjölda slíkra slysa og umfangi þeirra en það hefur ekki verið gert síðan sumarið 2020.
„Við erum að skrá með nákvæmum hætti í sumar umfangið á þessu og skoða breytingar síðan við gerðum það fyrir nokkrum árum síðan,“ segir Hjalti. Sumarið 2020 voru 149 slys skráð hjá spítalanum. Hjalti segir að hafa verði í huga að notkun hjólanna hefur aukist síðan þá.
„Það er tilfinning okkar að þessum slysum fari því miður ekki fækkandi. En það þarf að hafa í huga að notkunin og umfangið á þessum ferðamáta hefur áfram aukist. Það er mikilvægt að við höldum áfram með forvarnarstarf, bæði hvað varðar skipulag borgarinnar og svo að fólk fari varlega á hjólunum og að allir sýni tillitssemi í umferðinni til þess að draga úr þessari slysahættu.“
Sumarið 2020 fór í 31% tilvika ökumaður of hratt og missti jafnvægi en í 30% tilvika var ójafnri götu, grjóti, sandi eða gangstéttarbrún um að kenna. Í færri tilvikum var um nauðhelmun, bilun eða árekstur að ræða.
Samantekt á fjölda slysa, ástæðum þeirra og áverkum verða teknar saman á tímabilinu 1. júní til 31. ágúst og verða þær birtar í haust.