„Ekki góð pólitík að boða nýja skatta ef vel gengur“

„Við eigum að byggja upp skatta og regluverk fyrir fjármálafyrirtæki, …
„Við eigum að byggja upp skatta og regluverk fyrir fjármálafyrirtæki, líkt og fyrir önnur fyrirtæki, sem tryggja sem best samkeppnishæfni þeirra,“ segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. Lilja Alfreðsdóttir viðskiptaráðherra hefur opnað á umræðu um hvalrekaskatt á bankana vegna mikils hagnaðar sem má rekja til hærri vaxta og stækkandi vaxtamunar. Samsett mynd

„Vissulega eru þetta háar fjárhæðir en ef við skoðum þær í samhengi við það eigið fé sem bundið er í bönkunum og ef við skoðum arðsemina eins og hún hefur verið á undanförnum árum – þetta eru engir hamfaratímar og það er einfaldlega ekki góð pólitík að boða nýja skatta ef vel gengur.“

Þetta segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, í samtali við mbl.is en tilefnið eru orð Lilju Alfreðsdóttur viðskiptaráðherra í kvöldfréttum Stöðvar 2 á þriðjudag um að til greina komi að leggja hvalrekaskatt á bankana vegna mikils hagnaðar sem má rekja til hærri vaxta og stækkandi vaxtamunar, eins og meðal annars hefur verið gert á Ítalíu.

Greiða viðbótarskatt nú þegar

Bjarni segir skattaumhverfi fjármálafyrirtækja eins og annarra fyrirtækja í landinu þurfa að vera fyrirsjáanlegt og gagnsætt.

„Við eigum að byggja upp skatta og regluverk fyrir fjármálafyrirtæki, líkt og fyrir önnur fyrirtæki, sem tryggja sem best samkeppnishæfni þeirra.“

Bjarni segir það vera svo að íslenskum fjármálafyrirtækjum beri að greiða sérstakan skatt sem enn lifir, viðbótarskatt umfram önnur fyrirtæki í landinu.

„Sá sérstaki skattur á íslensk fjármálafyrirtæki sýnist mér fljótt á litið vera hærri en það 0,1% þak sem ítalska ríkisstjórnin er að kynna til sögunnar sem einhver mikil tíðindi.“

Segist hann ekki sjá betur en að skatturinn muni aldrei fara yfir 0,1% af eignum ítölsku bankanna.

„Það væri þá lægri skattur en sá sérstaki skattur sem þegar er í gildi á Íslandi, sem er 0,145% á skuldahliðina.“

Ráðherrann segir þar fyrir utan að bæði hvað snertir eiginfárkröfur og áhættuvog séu ríkari kröfur gerðar á íslensku bankanna ef eitthvað er en aðra sambærilega banka.

„Það leiðir meðal annars til þess að arðsemi eiginfjár hefur verið, að minnsta kosti til skamms tíma, lægri en á evrópska efnahagssvæðinu,“ líkt og mbl.is fjallaði meðal annars um í síðustu viku.

Kann ekki að meta hringlandahátt með svona hluti

Bjarni segist þess vegna ekki sjá sérstakt tilefni að koma með enn einn skattinn umfram þær sérstöku reglur um eigið fé og áhættuvigtun í íslenska bankakerfinu og ofan á þann viðbótarskatt sem íslensku bankarnir greiði.

„Við höfum verið að selja eignahluti í fjármálafyrirtækjum og höfum lagt upp úr því meðal annars að fá fjölbreyttan hóp fjárfesta að borðinu, þar með talið erlenda fjárfestingu inn í íslenska fjármálakerfið. Við höfum sömuleiðis verið sammála um að það væri æskilegt að halda áfram að losa um eignarhald ríkisins í fjármálafyrirtækjum, sérstaklega Íslandsbanka.

Það er ekki til þess fallið að auka líkurnar á því að slík sala geti verið vel heppnuð að hringla í skattaumhverfi bankanna.“

Segir hann það eingöngu muni leiða til þess að verðmat þeirra muni lækka eins og það gerir núna á Ítalíu.

„Verðið á bönkunum á Ítalíu er ekki bara að lækka um það sem nemur skattinum, það er að lækka töluvert umfram það vegna þess að markaðurinn kann ekki að meta hringlandahátt með svona hluti.“

Vill ekki sérstaka skattlagningu til að auka útgjöld

Bjarni segist heyra að þeir sem vilji tala fyrir þessum áformum virðist ætla að leggja skattinn á bankana til að efna til nýrra útgjalda.

„Ég heyri talað um að það þurfi að hlífa heimilunum og svo framvegis. Eigum við þá ekki bara að ræða um þær aðgerðir sem menn telja að þörf sé á að fara í og spyrja okkur hvort það sé tilefni til að fara í sérstaka skatta vegna þeirra útgjaldatilefna.

Ég tel að við höfum ef eitthvað er þörf fyrir að halda aftur af útgjöldum og mér líkar ekki hugmyndir að fara í sérstaka skattlagningu til að geta aukið útgjöldin enn frekar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert