Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir Ísland ekki brunnið inni með að sækjast eftir undanþágum fyrir skipafélög hvað varðar kaup á kvóta á losunarheimildum samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins (ETS-kerfið).
„Það sem við stöndum frammi fyrir í þessu er auðvitað að reyna að ná jafnvægi á milli þeirra sjónarmiða að standa vörð um íslenska hagsmuni og að við leggjum okkur fram við ná loftlagsmarkmiðum,“ segir Katrín í samtali við mbl.is í dag.
Málið segir hún hafa verið tekið fyrir á vettvangi ráðherranefndar um loftslagsmál sem hluta af aðgerðapakka Evrópusambandsins, flugið sé annar hluti pakkans og svo fleiri þættir.
Segir hún að þar hafi verið lagt fram mat hlutaðeigandi ráðuneyta, það er utanríkisráðuneytis sem leiðir vinnuna, sem og umhverfis- og innviðaráðuneytis sem vinna hana að „áhrifin af þessum skatti væru í raun og veru hlutfallslega mun minni en áhrifin af fluginu og því væri ekki talin ástæða til að bregðast sérstaklega við þessu ólíkt fluginu þar sem við fórum auðvitað í mjög mikla vinnu.“
Katrín segir að kostnaður við breytinguna væri metin sem tiltölulega lágt hlutfall af heildar inn- og útflutningsverðmæti eða undir 1% sem væru allt önnur áhrif en hvað varðar flugið og hvað varðar samkeppnina.
„Við erum auðvitað búin að skuldbinda okkur með okkur eigin markmið í loftslagsmálum og erum að vinna í þeim líka í samstarfi við ESB og Noreg. Þar er varið að benda á að þessi geiri er ábyrgur nú fyrir 3% af losun og það stefnir í 11% losun árið 2050 ef ekkert er að gert. Þess vegna er mjög mikilvægt að öllum hvötum sé beitt til að þróa nýjar lausnir.“
Bent hefur verið á að lausnirnar séu í raun ekki orðnar tiltækar og að óvissa sé með raforkumál.
„Það er eitt af því sem á eftir að ræða nánar í þessari vinnu Alþingis og ríkisstjórnar. Tímalínan er sú að þetta á eftir að koma til kasta Alþingis en þetta er það mat sem liggur fyrir á heildaráhrifum. Miðað við þau gögn sem liggja fyrir og þá umtalsverðu vinnu sem búið er að vinna er þetta það mat sem liggur fyrir.“
Segir hún að þótt málið eigi eftir að fara í frekari umræðu þá bendi það til þess að þessi heildarkostnaður sé tiltölulega lágur en gerir þann fyrirvara að það eigi eftir að ræða þetta betur. Spurð út í tímarammann með tilliti til þess að Ísland sækist eftir undanþágum segir Katrín Ísland ekki brunnið inni með neinar undanþágur.
Segir hún að stjórnvöld hafi risið upp á afturlappirnar þar sem þeim þótti flugið koma hlutfallslega illa niður á Íslandi en „við styðjum markmið loftslagspakkans og erum þátttakendur í honum.“