Óttast öngþveiti á gatnamótum

Önnur vinstribeygjuakreinin á Kleppsmýrarvegi inn á Sæbraut verður aflögð. Miðeyja …
Önnur vinstribeygjuakreinin á Kleppsmýrarvegi inn á Sæbraut verður aflögð. Miðeyja götunnar verður breikkuð og gróður settur í hana. mbl.is/sisi

Reykjavíkurborg ætlar ekki að hvika frá þeim áformum að fjarlægja aðra af tveimur beygjuakreinum af Kleppsmýrarvegi inn á Sæbraut. Er þetta gert í andstöðu við stórfyrirtæki sem eru með starfsemi á svæðinu. Eins og fram kom í frétt í Morgunblaðinu í síðustu viku hefur borgin samið við Berg verktaka ehf. um að breyta gatnamótunum. Fyrirtækin harma jafnframt að ekki hafi verið staðið við loforð um formlegt samráð áður en lokaákvörðun var tekin.

Reykjavíkurborg tilkynnti í febrúar sl. að til stæði að bæta umferðaröryggi á gatnamótum Sæbrautar/Kleppsmýrarvegar/Skeiðarvogs í Vogahverfi. Þar á meðal að leggja af aðra beygjuakreinina af Kleppsmýrarvegi inn á Sæbraut til suðurs.

Fjölmörg stór fyrirtæki eru með starfsemi sína austan Sæbrautar og miklir þungaflutningar fara um gatnamótin, m.a. með stóran hluta byggingarefnis á höfuðborgarsvæðið. Fyrirtæki brugðust hart við þessum áformum og Árni Stefánsson, forstjóri Húsasmiðjunnar, sagði í samtali við Morgunblaðið að þetta myndi snarauka umferðarteppur sem væru þarna daglega á álagstímum.

Stórfyrirtæki á svæðinu

Hann óttaðist að með breytingunni myndi mun meiri þungaumferð beinast í gegnum hina fjölmennu nýju Vogabyggð með tilheyrandi aukningu á mengun og slysahættu þar. Húsasmiðjan og Byko eru með stórar vörugeymslur á svæðinu og sömuleiðis Aðföng (Hagar). Við Vogabakka eru Samskip einnig með höfuðstöðvar og stórar vörugeymslur. Af öðrum fyrirtækjum á svæðinu má nefna Lífland/Kornax og Jóna Transport. Þá er stórverslun Húsasmiðjunnar og Blómavals á horni Súðarvogs og Kleppsmýrarvegar.

Morgunblaðið leitaði til Árna Stefánssonar þegar ljóst var að borgin héldi sínu striki þrátt fyrir mótmæli og ábendingar fyrirtækjanna.

Árni Stefánsson, forstjóri Húsasmiðjunnar.
Árni Stefánsson, forstjóri Húsasmiðjunnar. Ljósmynd/M. Flovent

„Við, fulltrúar nokkurra fyrirtækja með starfsemi á Vogasvæðinu, áttum fund í Ráðhúsinu 16. mars með Einari Þorsteinssyni, formanni borgarráðs, Alexöndru Briem borgarfulltrúa og Guðbjörgu Lilju Erlendsdóttur samgöngustjóra Reykjavíkurborgar. Sagðist Einar Þorsteinsson hafa skilning á áhyggjum okkar af áhrifum þess að loka annarri beygjuakreininni og lofaði hann því að þau myndu kanna málið betur og svara okkur formlega,“ segir Árni.

„Guðbjörg Lilja lýsti því yfir að hún myndi ekki breyta þeirri ákvörðun að loka beygjuakreininni nema að slíkt kæmi frá pólitíkinni, jafnvel þó að göngubrú væri í bígerð. Alexandra Briem virtist einnig á sömu skoðun og lítið var gefið fyrir þau rök að aðeins eitt slys á óvörðum vegfaranda hefði orðið þarna á 11 ára tímabili. Ein tillaga sem kom fram á fundinum var að takmarka umferð úr Skeiðarvogi á ákveðnum tímum á móti umferð á beygjureyninni og það sögðust fulltrúar borginnar vera tilbúnir að skoða. Við höfum ekki fengið neinar upplýsingar um hvort farið var í skoðun á því, líklega var það ekki gert og verkið sett beint í útboð.“

Fyrirhugaðar breytingar við gatnamót Kleppsmýrarvegar og Sæbrautar.
Fyrirhugaðar breytingar við gatnamót Kleppsmýrarvegar og Sæbrautar.

Árni segir það vera að sjálfsögðu mikil vonbrigði að Einar Þorsteinsson ætli að ganga á bak orða sinna á fundinum og málið sé keyrt áfram án tillits til röksemda. Jafnframt sé þetta slæm stjórnsýsla og þarna sjáist glöggt að embættismenn virðist í raun stýra borginni og hafa sitt fram, frekar en þeir aðilar sem til þess eru kjörnir.

Óbærilegt ástand

„Í sumar hafa ítrekað verið umferðarteppur niður í Skútuvog og við gatnamótin inn í Vogabyggðina á álagstímum, þrátt fyrir að tvær beygjuakreinar séu inn á Sæbraut. Það segir sig sjálft að ástandið verður óbærilegt og daglegar teppur og umferðartafir þegar búið verður að helminga beygjuakreinarnar,“ segir Árni.

Hann segir að auðvitað hafi borgin og Vegagerðin átt í sameiningu að reisa göngubrú yfir Sæbraut fyrir nokkrum árum þegar öll þessi þétta íbúðabyggð var skipulögð í Vogabyggð en ekki rjúka til og stífla alla eðlilega umferð og starfsemi í Vogahverfi núna í nafni umferðaröryggis.

„Svo er vitnað til þess að allt verði betra þegar Borgarlínan verður komin í gagnið, en haldi mál áfram með sama hætti og hingað til verða mörg ár í það og borgin beinir nú mun meiri umferð inn í Vogabyggð í stað þess að leiða hana inn á Sæbraut. Það er eðlileg krafa starfsfólks okkar og viðskiptavina, sem einnig eru íbúar í höfuðborginni, að svona sé ekki staðið að málum. Ég er jafnframt sannfærður um að fjöldi íbúa í Vogabyggð verður ekki sáttur við þá heimatilbúnu umferðarteppu sem borgin er að planleggja inn í og út úr hverfinu. Við munum að minnsta kosti ekki þreytast á að koma málefnalegum rökum að og benda á hverjir beri ábyrgð á slíku ástandi þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar um að það hafi verið fyrirséð,“ segir Árni að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert