Mygla hefur áhrif á skólastarf í þremur grunnskólum í Reykjavík á komandi vetri. Um er að ræða Hagaskóla, Hólabrekkuskóla og Langholtsskóla þar sem beita á mismunandi lausnum til að halda skólahaldi gangandi þrátt fyrir myglu og viðvarandi framkvæmdir.
Í Hagaskóla er skólasetningu frestað um sex daga en hún átti að vera hinn 22. ágúst og hefur gámastofum verið komið fyrir á skólalóðinni til að geta haft alla nemendur skólans á sama stað.
Tæpur helmingur nemenda Hólabrekkuskóla í Breiðholti þarf að verja næstu skólaárum í Korpuskóla í Grafarvogi. Yfirstandandi framkvæmdir vegna rakaskemmda gera það að verkum að tvö af fjórum húsum skólans eru ónothæf næstu árin. Í skólanum eru um 500 nemendur en 240 nemendur sjötta til tíunda bekkjar þurfa að fara með rútum í Grafarvog alla virka morgna vikunnar til að sækja nám.
Mygla hefur greinst í Langholtsskóla og þurfa nemendur í níunda og tíunda bekk að ferðast í Ármúla til að stunda nám.
Ómar Örn Magnússon skólastjóri Hagaskóla segir það hafa verið nauðsynlegt að fresta skólasetningu um tæpa viku til að gera viðeigandi ráðstafanir. Framkvæmdum við skólann átti að ljúka í sumar áður en skólahald hæfist, en nú er vonast til að framkvæmdum ljúki fyrir lok september.
Nemendur í Hólabrekkuskóla taka við af nemendum í Hagaskóla sem hafa verið í húsnæði skólans síðustu misseri og tímasetningin því afar heppileg fyrir Hólabrekkuskóla. „Það var tekin ákvörðun í vor um að það ætti að fara í þessar framkvæmdir. Þá var Korpuskóli einmitt að losna og það var ekkert húsnæði í nágrenninu sem þótti góður kostur,“ segir Lovísa Guðrún Ólafsdóttir skólastjóri Hólabrekkuskóla í samtali við Morgunblaðið.
Hvorki Árelía Eydís Guðmundsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins og formaður skóla- og frístundasviðs, né Ólöf Örvarsdóttir, sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssviðs, gáfu kost á viðtali við vinnslu fréttarinnar.