Horfa til sameiningar HÍ og Háskólans á Hólum

Háskólinn á Hólum og Háskóli Íslands skoða núna möguleika á …
Háskólinn á Hólum og Háskóli Íslands skoða núna möguleika á samruna. Samsett mynd

Rektor Háskóla Íslands, rektor Háskólans á Hólum og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Háskóla-, iðnaðar-, og nýsköpunarráðherra hafa skrifað undir viljayfirlýsingu um aukið samstarf eða mögulega sameiningu skólanna tveggja. 

„Vonir standa til að sameina skólanna og þetta kemur af þeim grunni sem ég hef lagt á þessu kjörtímabili að auka samstarf háskólanna í landinu gríðarlega mikið og ýta undir fjárhagslegan hvata til aukinnar samvinnu. Þetta er til marks um þau sóknartækifæri sem liggja í því að auka samstarfið til að auka gæði og samkeppnishæfni íslenskra háskóla,“ segir Áslaug í samtali við mbl.is.

Von um frekari sameiningar

Áslaug tekur jafnframt fram að hún sé vongóð um að aukið samstarf háskóla á landinu undanfarin misseri leiði til frekari sameininga háskóla. 

„Ísland er of fámennt land til að bjóða upp á háskólamenntun á heimsmælikvarða í sjö háskólum nema aðeins að þeir starfi miklu betur saman,“ segir Áslaug.

Áður hafði verið greint frá því í Morgunblaðinu að Háskólinn á Hólum og Háskólinn á Bifröst hafi átt í óformlegum viðræðum um náið samstarf. Margrét Jónsdóttir Njarðvík, rektor Háskólans á Bifröst, sagði í samtali við Morgunblaðið í apríl að það myndi þjóna hagsmunum háskólamenntunar á Íslandi ef allir háskólarnir á landsbyggðinni yrðu sameinaðir.

Niðurstaða liggur fyrir í desember

Hún tekur fram að nú hefjist vinna þar sem verður unnin fýsileikagreining á því hvernig samruni eða samstarfsform háskólanna gæti verið. Niðurstaða úr greiningunni mun liggja fyrir fyrsta desember.

„Við erum að horfa til uppbyggingu bæði á Hólum í Hjaltadal og Sauðárkróki. Það þarf mikla uppbyggingu á skólahúsnæði Háskólans á Hólum. Þess vegna erum við að skoða hvernig þessu gæti verið háttað á Sauðarárkróki en líka til að vernda þann merkilega stað sem Hólar eru í Hjaltadal. Þetta er mjög merkur staður.“

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Háskóla-, iðnaðar-, og nýsköpunarráðherra ásamt Jón Atla …
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Háskóla-, iðnaðar-, og nýsköpunarráðherra ásamt Jón Atla Benediktssyni rektor Háskóla Íslands og Hólmfríði Sverrisdóttur rektor Háskólans á Hólum. Ljósmynd/Aðsend

Báðir skólar njóti góðs af samruna

Hún segir samrunan eða mögulegt samstarf eiga sér fyrirmynd erlendis og segir möguleika vera til staðar til að auka hagkvæmni og efla gæði náms.

„Við erum að nýta reynslu erlendis frá. Til dæmis frá háskólakerfum þar sem skólar starfa sem ein skipulagsheild, þar sem er einn móðurskóli en síðan eru sjálfstæðar starfseiningar á tilheyrandi háskólasvæði.“

Hún segir að báðir skólar njóti góðs af mögulegum samruna og sér fyrir sér ýmis tækifæri í auknu samstarfi. Hún nefnir sem dæmi fiskeldis- og fiskalíffræðideild og ferðamáladeild Háskólans á Hólum sem eru nú að byrja í sameiginlegum námsbrautum með Háskóla Íslands.

„Það eru gífurleg tækifæri í tengslum Háskóla Íslands við landsbyggðina, atvinnulífið og ekki síst þá matvælaframleiðslu sem á sér stað í Skagafirði. Háskóli Íslands fengi með sameiningu viðurkenningu á fræðasviði auðlinda og búvísinda sem er eina fræðasviðið sem þau eru ekki með viðurkenningu á.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert