Segir úrræðið ekkert annað en fangabúðir

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, gagnrýnir áform Guðrúnar Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, gagnrýnir áform Guðrúnar Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra. Samsett mynd

„Kannski var þetta markmiðið með því að henda fólki á götuna alveg frá upphafi. Þetta var til þess að undirbúa jarðveginn til að kynna til leiks flóttamannabúðir. Fangabúðir fyrir flóttamenn.“

Þetta segir Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, um áform Guðrúnar Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra um að setja á laggirnar svo kallað lokabúsetuúrræði (e. detention center) með takmörkunum fyrir þá flóttamenn sem fara ekki frá landi innan 30 daga eftir að þeim hefur borist synjun frá bæði Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála. 

Eins og greint hefur verið frá gerir lagabreyting sem var gerð í vor það að völdum að hælisleitendur missa alla þjónustu 30 dögum eftir að þeir hafa hlotið endanlega synjun um alþjóðlega vernd. Eru þeir þá án kennitölu, réttinda og allra úrræða. Sveitarfélögin hafa gagnrýnt þetta harðlega þar sem hælisleitendur enda út á götu ef þau útvega þeim ekki húsnæði.

Kynnt sem vægari lausn

„Ég held að hér sé að teiknast upp ákveðin mynd sem útskýrir hvers vegna ríkisstjórnin er tilbúin að henda fólki á götuna. Samfélagið hefur ekki verið tilbúið að setja upp fangabúðir fyrir flóttamenn hingað til og nú á að kynna það sem einhvers konar vægari lausn en þá hörmungarlausn sem þau völdu með þessu útlendingafrumvarpi,“ segir Þórhildur.

Hún gagnrýnir jafnframt að ríkisstjórnin hafi gert fyrrgreinda breytingu án þess að hafa samráð við sveitarfélögin sem sitja nú uppi með nýtt vandamál. Hún telur þetta vera útspil hjá ríkisstjórninni þar sem markmiðið var alltaf að láta svo kallað lokabúsetuúrræði líta út sem fýsilegri kost miðað við núverandi ástand.

Leggja fram frumvarp í haust

Spurð hvað hún telji að Guðrún eigi við með lokabúsetuúrræði með takmörkunum telur hún allar líkur á því að fólki verði óheimilt að yfirgefa búsetuúrræðið.

„Við vitum það að ef fólki er ekki frjálst að fara þá er um frelsissviptingu að ræða. Það er alltaf að einhverju leyti fangelsi. Varla getur þetta verið annað en takmarkanir á ferðafrelsi fólks.“

Aðspurð segir hún vinnubrögð ríkisstjórnarinnar í útlendingamálum vera kaldranaleg, útpæld og tekur fram að um mikinn skort á mannúð sé að ræða. 

„Það var varað við þessu. Við eyddum mjög miklum tíma í að reyna að sannfæra þingið um að samþykkja ekki þessi lög því við vissum að þetta myndi gerast,“ segir hún og tekur fram að Píratar hyggist leggja fram frumvarp um leið og þing kemur saman til að afturkalla þær breytingar sem voru gerðar á útlendingalögum í vor.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert