Ísland mun geta staðið við skuldbindingar sínar um kolefnisjöfnun á 2. tímabili Kyoto-bókunarinnar, eftir að gengið var frá kaupum á 3,4 milljónum kolefniseininga, þ.e. loftslagsheimilda, frá Slóvakíu. Þetta segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, í samtali við Morgunblaðið.
„Kaupverð heimildanna er 350 milljónir króna, sem er vel innan fjárheimilda, en samkvæmt fjárlögum þessa árs voru 800 milljónir eyrnamerktar til þessa verkefnis. Sparnaðurinn er því 450 milljónir og það er gott að geta sparað þá fjármuni fyrir ríkissjóð, ekki veitir af,“ segir Guðlaugur Þór.
Fyrir hefur legið að Ísland hefur losað meira af gróðurhúsalofttegundum en heimilt var skv. Kyoto-bókuninni á því tímabili sem skuldbindingin tekur til, sem er árabilið 2013 til 2020. Því þurfti að kaupa heimildir frá öðrum til að jafna reikningana. Eftir að færar leiðir höfðu verið skoðaðar varð niðurstaðan sú að kaupa heimildirnar frá Slóvakíu, en fjármunirnir munu renna í sjóð þar í landi til stuðnings loftslagstengdum verkefnum, í þessu tilviki til að bæta einangrun húsa.
„Þetta er farsæl niðurstaða í snúinni stöðu,“ segir Guðlaugur Þór. „Þetta er fortíðarvandi sem kom í minn hlut að leiða til lykta. Það hefði þó verið betra fyrir okkur ef við hefðum staðið við skuldbindingar okkar í landgræðslu og skógrækt og hefðum ekki þurft að gera þetta, en úr því að það var ekki gert er þetta eins góð niðurstaða og mögulegt var. En það segir okkur líka að við verðum að hugsa til framtíðar og sjá til þess að við fáum frekar tekjur af loftslagsheimildum, í stað þess að kaupa þær af öðrum þjóðum,“ segir hann.
„Það er ekki í boði að Ísland standi ekki við sínar skuldbindingar, við höfum verið og erum í hópi þeirra ríkja sem eru með mestan metnað í loftslagsmálum. Þetta er betri niðurstaða fyrir ríkissjóð en gert var ráð fyrir, en ekki skiptir síður máli að þessi lausn tryggir að okkar framlag nýtist loftslaginu. Nú er verkefnið að horfa til framtíðar og vinna áfram að því að minnka losun og auka hlut hreinnar orku, bæði heima fyrir og í samvinnu við önnur ríki,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson.