Jóna Árný Þórðardóttir, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, segir að enn sé allt á huldu varðandi það hvernig breiður af af sígarettustubbum bárust í fjöru nærri byggð Eskifjarðar og uppgötvuðust í gær.
„Við komum af fjöllum. Ýmislegt hefur maður séð í fjörum en ekki samansafn af sígarettustubbum. Þetta er mjög skrítið,“ segir Jóna Árný.
Hún segir menn hafa nú þegar kannað hvernig hafstraumar liggja að svæðinu sem stubbana mátti finna til að fá gleggri mynd af því hvaða leið þeir fóru að landi. Sú könnun hafi leitt í ljós að stórt svæði sé undir þar sem straumurinn liggur norðan frá Reyðarfirði, að Eskifirði og svo út að sunnaverðu. Því sé ekki hægt að einblína eingöngu á skipaferðir um Eskifjörð.
Hreinsistarf er býgerð en starfsmenn á vegum byggðarsamlagsins voru í firðinum í morgun til að kanna aðstæður. Til stendur að ryksuga óskapnaðinn upp síðar í dag.
Jóna Árný telur líklegast sé þarna rusl á ferð frekar en að heilar sígarettur hafi farið í sjóinn og stubbarnir setið eftir. „Ég ber þá von í brjósti að þessu hafi ekki verið hent í sjóinn, heldur þetta hafi frekar fokið í sjóinn af einhverju skipi,“ segir Jóna Árný.