Trausti Jónsson veðurfræðingur segir að meðalhiti fyrri hluta ágústmánaðar í Reykjavík hafi verið 12,3 stig, sem sé +0,8 stigum ofan meðallags sömu daga 1991 til 2020 og +1,2 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Hitinn raðist í 6. hlýjasta sæti aldarinnar.
„Hlýjastir voru þessir dagar 2004, meðalhiti þá 14,0 stig, en kaldastir voru þeir í fyrra, 2022, meðalhiti 10,0 stig. Á langa listanum raðast hitinn í 16. hlýjasta sæti (af 151). Hlýjast var 2004, en kaldast 1912, meðalhiti þá aðeins 7,4 stig.
Á Akureyri er meðalhiti nú 11,1 stig, -0,3 stigum neðan meðallags 1991 til 2020, en +0,2 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára,“ skrifar Trausti í færslu sem birt er á veðurbloggsíðu hans.
Hann bendir einnig á, að hita á landinu sé enn misskipt. Langkaldast, að tiltölu, hafi verið á Austfjörðum. Þar sé þetta þriðja kaldasta ágústbyrjun aldarinnar. Við Faxaflóa og á Suðurlandi sé hún hins vegar sú sjötta hlýjasta.
Miðað við síðustu tíu ár hefur verið hlýjast á Þverfjalli, hiti +2,4 stigum ofan meðallags, en kaldast hefur verið á Fonti á Langanesi, hiti þar -1,4 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára, meðalhiti 7,0 stig.