Samband íslenskra sveitarfélaga hefur tekið saman minnisblað um álitaefni sem fram koma í ákvæðum laga um félagsþjónustu sveitarfélaga og varða heimild eða skyldu þeirra til að veita útlendingi sem ekki hefur lögheimili á Íslandi fjárhagsaðstoð.
Niðurstaða sambandsins er miðað við þær forsendur sem raktar eru í minnisblaðinu að sveitarfélögum sé hvorki heimilt né skylt að veita þeim erlendu ríkisborgurum fjárhagsaðstoð, sem vísað hefur verið úr þjónustu ríkisins í kjölfar synjunar á umsókn viðkomandi um alþjóðlega vernd samkvæmt útlendingalögum.
Í minnisblaðinu, sem unnið er af Flosa H. Sigurðssyni, lögfræðingi á lögfræði- og velferðarsviði Sambandsins, er fjallað um reglugerð um fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, í sérstökum tilvikum, við erlenda ríkisborgara og endurgreiðslur fjárhagsaðstoðar úr ríkissjóði. Þá eru þar raktar forsendur þess að sveitarfélögum sé heimilt að veita einstaklingum fjárhagsaðstoð og athugasemdir við ákvæði laganna sem fjallar um fjárhagsaðstoð gagnvart erlendum ríkisborgurum sem ekki eiga lögheimili í landinu.
Þar eru einnig ítrekaðar ábendingar sambandsins sem fram komu í umsögn þess á sínum tíma þar sem bent var á þá stöðu sem nú er komin upp um þjónustu gagnvart þessum hópi fólks.
Í niðurlagi minnisblaðins segir að samband íslenskra sveitarfélaga telji brýnt að leysa úr þeirri óvissu sem upp er komin gagnvart þessum hópi fólks og vanda þess. Jafnframt lýsir sambandið sig reiðubúið til fundahalda hvað varðar efni minnisblaðsins með þeim ráðuneytum sem að málaflokknum koma.