Tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens segir að hægt sé að breyta vörn í sókn hvað varðar stöðu íslenskrar tungu. Á miðopnu Morgunblaðsins í dag var birt grein eftir söngvaskáldið þar sem hann lýsti áhyggjum sínum af tungumálinu. Í samtali við mbl.is segist hann ekki vera viss um hvort íslenskunni sé við bjargandi, sé ekki stigið nógu fast til jarðar.
„Ég á allt mitt að þakka íslenskunni. Allur ferillinn minn er byggður á íslensku tungumáli – allt það sem ég hef unnið mér inn í gegnum árin er tilkomið vegna þess að ég hef verið að vinna með íslenskuna,“ segir rokkarinn í samtali við mbl.is, spurður út í það sem knúði hann til þess að skrifa greinina.
„Íslenskan hefur verið mitt atvinnutæki og móðir og faðir. Hún á þetta inni hjá mér.“
Bubbi segist hafa tekið eftir því á ferðum sínum um landið í sumar að nánast hvarvetna væru merkingar á ensku. Segir hann sig hafa rekið í rogastans að sjá að þjónustustaðir, hvort sem um ræðir veitingastaði í Reykjavík eða vegasjoppur við þjóðveginn, hefðu enska tungu í forgangi. „Þetta er allt á ensku, nánast undantekningarlaust,“ segir hann.
„Mér finnst það skipta gríðarlegu máli að við þegjum ekki og séum ekki meðvirk með þessum geysilega hagnaði og velvild íslenska ferðaiðnaðarins – og það á um leið við allar hliðargötur sem liggja út af ferðaiðnaðinum – sem nýtur góðs af þessu.“
„Ég er í veikri von um að brýna landsmenn þá sem lesa að ef við stígum ekki því fyrr fast til jarðar eru allar líkur á því að íslenskan verði, að stórum hluta í landinu, annað mál en ekki fyrsta mál. Eins með það að íslenska krónan verði fyrsta tungumál stórfyrirtækjanna,“ segir hann og heldur áfram:
„Ég er bara hræddur um tungumálið okkar. Mér finnst það alls ekki vera þannig að það muni lifa þetta af. Ég er bara ekkert viss um það.“
Spurður hvernig honum finnist að stíga eigi til jarðar svarar hann: „Þetta byrjar alltaf hjá börnunum. Síðan tel ég að skólarnir mættu jafnvel skoða stöðu sína og svo eru það auðvitað þeir sem eru fara með menntamálin í landinu.“
Minnist hann þess að hann hafi borið hugmynd sína undir stjórnvöld um sérstaka herferð til þess að efla íslenskuna: „Það yrði einhvers konar herferð með listamönnum, rithöfundum og skáldum,“ segir Bubbi.
„Við myndum fara í alla skóla og sýna fram á hversu mikilvægt og hversu flott tungumálið okkar er.“
Segir hann að mikilvægt sé fyrir börn að hafa tungumálið „eins framarlega á tungunni og hægt er“ en ekki aftarlega og á hann þá við að „enskan væri fyrir framan á tungunni“ vegna þeirra netmiðla sem börn nota og eru á ensku.
„Ef við erum bara nógu hávær, ef við erum bara nógu snjöll og ef við gerum þetta af mildi og kærleika þá held ég að við getum snúið vörn í sókn, þannig að tungumálið okkar verði eftirsótt og flott og kúl og nett að nota,“ kveður skáldið að lokum.