„Við getum snúið vörn í sókn“

„Ég er bara hræddur um tungumálið okkar. Mér finnst það …
„Ég er bara hræddur um tungumálið okkar. Mér finnst það alls ekki vera þannig að það muni lifa þetta af. Ég er bara ekkert viss um það,“ segir Bubbi Morthens við mbl.is. mbl.is/Hallur Már

Tón­list­armaður­inn Bubbi Mort­hens seg­ir að hægt sé að breyta vörn í sókn hvað varðar stöðu ís­lenskr­ar tungu. Á miðopnu Morg­un­blaðsins í dag var birt grein eft­ir söngvaskáldið þar sem hann lýsti áhyggj­um sín­um af tungu­mál­inu. Í sam­tali við mbl.is seg­ist hann ekki vera viss um hvort ís­lensk­unni sé við bjarg­andi, sé ekki stigið nógu fast til jarðar.

„Ég á allt mitt að þakka ís­lensk­unni. All­ur fer­ill­inn minn er byggður á ís­lensku tungu­máli – allt það sem ég hef unnið mér inn í gegn­um árin er til­komið vegna þess að ég hef verið að vinna með ís­lensk­una,“ seg­ir rokk­ar­inn í sam­tali við mbl.is, spurður út í það sem knúði hann til þess að skrifa grein­ina.

„Íslensk­an hef­ur verið mitt at­vinnu­tæki og móðir og faðir. Hún á þetta inni hjá mér.“

Ferðaþjón­ust­an njóti góðs af ensk­unni

Bubbi seg­ist hafa tekið eft­ir því á ferðum sín­um um landið í sum­ar að nán­ast hvarvetna væru merk­ing­ar á ensku. Seg­ir hann sig hafa rekið í rogastans að sjá að þjón­ust­ustaðir, hvort sem um ræðir veit­ingastaði í Reykja­vík eða vega­sjopp­ur við þjóðveg­inn, hefðu enska tungu í for­gangi. „Þetta er allt á ensku, nán­ast und­an­tekn­ing­ar­laust,“ seg­ir hann.

„Mér finnst það skipta gríðarlegu máli að við þegj­um ekki og séum ekki meðvirk með þess­um geysi­lega hagnaði og vel­vild ís­lenska ferðaiðnaðar­ins – og það á um leið við all­ar hliðargöt­ur sem liggja út af ferðaiðnaðinum – sem nýt­ur góðs af þessu.“

Verði ekki annað mál í eig­in landi

„Ég er í veikri von um að brýna lands­menn þá sem lesa að ef við stíg­um ekki því fyrr fast til jarðar eru all­ar lík­ur á því að ís­lensk­an verði, að stór­um hluta í land­inu, annað mál en ekki fyrsta mál. Eins með það að ís­lenska krón­an verði fyrsta tungu­mál stór­fyr­ir­tækj­anna,“ seg­ir hann og held­ur áfram:

„Ég er bara hrædd­ur um tungu­málið okk­ar. Mér finnst það alls ekki vera þannig að það muni lifa þetta af. Ég er bara ekk­ert viss um það.“

Nett að tala ís­lensku

Spurður hvernig hon­um finn­ist að stíga eigi til jarðar svar­ar hann: „Þetta byrj­ar alltaf hjá börn­un­um. Síðan tel ég að skól­arn­ir mættu jafn­vel skoða stöðu sína og svo eru það auðvitað þeir sem eru fara með mennta­mál­in í land­inu.“

Minn­ist hann þess að hann hafi borið hug­mynd sína und­ir stjórn­völd um sér­staka her­ferð til þess að efla ís­lensk­una: „Það yrði ein­hvers kon­ar her­ferð með lista­mönn­um, rit­höf­und­um og skáld­um,“ seg­ir Bubbi.

„Við mynd­um fara í alla skóla og sýna fram á hversu mik­il­vægt og hversu flott tungu­málið okk­ar er.“

Seg­ir hann að mik­il­vægt sé fyr­ir börn að hafa tungu­málið „eins framar­lega á tung­unni og hægt er“ en ekki aft­ar­lega og á hann þá við að „ensk­an væri fyr­ir fram­an á tung­unni“ vegna þeirra net­miðla sem börn nota og eru á ensku.

„Ef við erum bara nógu há­vær, ef við erum bara nógu snjöll og ef við ger­um þetta af mildi og kær­leika þá held ég að við get­um snúið vörn í sókn, þannig að tungu­málið okk­ar verði eft­ir­sótt og flott og kúl og nett að nota,“ kveður skáldið að lok­um.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert