Fengu fjóra daga til að klára álitið

Friðrik Árni Friðriksson Hirst, framkvæmdastjóri Lagastofnunar HÍ og aðjúnkt við …
Friðrik Árni Friðriksson Hirst, framkvæmdastjóri Lagastofnunar HÍ og aðjúnkt við Lagadeild HÍ.

Friðrik Árni Friðriksson, framkvæmdastjóri Lagastofnunar HÍ og aðjunkt við HÍ, segir í samtali við mbl.is að Lagastofnunin hafi fengið út vikuna til að klára álit sitt um samspil ákvæði útlendingalaga og laga um félagsþjónustu sveitarfélaga. 

Niðurstaðan í því áliti var eins og mbl.is hefur fjallað um að regla útlendingalaganna víki ekki til hliðar ákvæði laga um félagsþjónustu sveitarfélaganna af þeirri einu ástæðu að réttindi einstaklings sem umsækjandi um alþjóðlega vernd hafi fallið niður.

Rann blóðið til skyldunnar

Lagastofnun fékk eins og fyrr segir afar stuttan tíma til að vinna álitið en Friðrik segir stofnunina hafa fengið símtal frá forsætisráðuneytinu á þriðjudagsmorgun með beiðni um að álitið yrði unnið með hraði og helst skilað fyrir föstudag. Álitið lá svo fyrir í gær og var því unnið á þremur dögum.

Hann segir það ekki hefðbundið að taka við verkefnum með svo lítinn tíma til stefnu en að Lagastofnun hafi í þetta sinn verið beðin sérstaklega um að hafa hraðar hendur og að blóðið hafi runnið til skyldunnar vegna þeirra aðstæðna sem uppi eru í samfélaginu. Svarið við spurningum ráðuneytisins hafi einnig verið nokkuð ljóst.

Álitin stangist ekki á við hvort annað

Friðrik kveðst hafa tekið eftir því að meiningarmunur sé á því hverju felist raunverulega í álitinu. Fólk hafi til dæmis nefnt að minnisblað Sambands íslenskra sveitarfélaga stangist á við álitið sem hann skilaði. 

„Það hefur komið fram í umræðunni að álitið stangist á við minnisblað Sambands íslenskra  sveitarfélaga. Ég er ekki sammála því. Minn skilningur er sá að í þeirra áliti sé fyrst og fremst fjallað um túlkun á 15. gr. laga félagsþjónustu og hvort hún eigi við um hópinn sem um ræðir. En þeirri spurningu er ekki svarað í álitsgerð Lagastofnunar, enda var hún ekki lögð fyrir.“

Það sé því takmörkuð skörun milli álitanna tveggja að hans sögn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert