Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, segir í samtali við mbl.is að miklu máli skipti að stíga varlega til jarðar varðandi beiðni Isavia um að fella allt að 2.900 tré í Öskjuhlíðinni í þágu flugöryggis.
„Við höfum alltaf lagt ríka áherslu á að flugöryggi sé tryggt á svæðinu og þarna kemur fram krafa frá Isavia um að fara í umfangsmikla grisjun til að tryggja öryggi. Við sammæltumst um það í borgarráði í gær að rýna þessa beiðni nánar og fá frekari upplýsingar,“ segir Hildur en bætir við:
„Á sama tíma og við sjálfstæðismenn viljum gæta þess að flugöryggi sé tryggt þá þykir okkur líka mjög vænt um Öskjuhlíðina sem grænt útivistarsvæði í Reykjavík. Þannig við þurfum líka að skilja hvernig áhrif þessi aðgerð myndi hafa á Öskjuhlíðina sem útivistarsvæði, hvort að það sé hægt að leita annarra leiða eða stíga meira varlega til jarðar en ná samt sama árangri fyrir flugöryggi.“
Erindi þess efnis að fella trén var send á borgarráð sem fjallaði um málið í gær en í minnisblaði Isvia kemur fram „að trjágróður í Öskjuhlíð er farin að verða raunveruleg öryggisógn gagnvart loftförum í aðflugi að braut 31 og brottflugi frá braut 13. Vindafar ræður notkun flugbrauta og flugbraut verður að vera aðgengileg og örugg til þess að tefla ekki rekstraröryggi flugvallarins í tvísýnu.“
Er það krafa Isavia innanlandsflugvalla að Reykjavíkurborg bregðist við hættunni án tafar.
„Við lítum svo á að það verði að vanda til verka í þessu máli og auðvitað skiptir máli að fólkið okkar sem ferðast í lofti sé öruggt,“ segir Hildur að lokum.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, sagði fyrr í dag á Facebook að kallað verði eftir sjónarmiðum þeirra sem hagsmuna hafa að gæta í tengslum við kröfu Isavia.