Nauðsynlegt að stíga varlega til jarðar

Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins og borgarfulltrúi í Reykjavík, segir mikilvægt …
Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins og borgarfulltrúi í Reykjavík, segir mikilvægt að stíga varlega til jarðar. Samsett mynd

Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, segir í samtali við mbl.is að miklu máli skipti að stíga varlega til jarðar varðandi beiðni Isavia um að fella allt að 2.900 tré í Öskjuhlíðinni í þágu flugöryggis.

„Við höfum alltaf lagt ríka áherslu á að flugöryggi sé tryggt á svæðinu og þarna kemur fram krafa frá Isavia um að fara í umfangsmikla grisjun til að tryggja öryggi. Við sammæltumst um það í borgarráði í gær að rýna þessa beiðni nánar og fá frekari upplýsingar,“ segir Hildur en bætir við:

„Á sama tíma og við sjálfstæðismenn viljum gæta þess að flugöryggi sé tryggt þá þykir okkur líka mjög vænt um Öskjuhlíðina sem grænt útivistarsvæði í Reykjavík. Þannig við þurfum líka að skilja hvernig áhrif þessi aðgerð myndi hafa á Öskjuhlíðina sem útivistarsvæði, hvort að það sé hægt að leita annarra leiða eða stíga meira varlega til jarðar en ná samt sama árangri fyrir flugöryggi.“

Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Fólkið í flugvélunum þarf að vera öruggt

Erindi þess efnis að fella trén var send á borgarráð sem fjallaði um málið í gær en í minn­is­blaði Isvia kem­ur fram „að trjá­gróður í Öskju­hlíð er far­in að verða raun­veru­leg öryggisógn gagn­vart loft­för­um í aðflugi að braut 31 og brott­flugi frá braut 13. Vindafar ræður notk­un flug­brauta og flug­braut verður að vera aðgengi­leg og ör­ugg til þess að tefla ekki rekstr­arör­yggi flug­vall­ar­ins í tví­sýnu.“

Er það krafa Isavia inn­an­lands­flug­valla að Reykja­vík­ur­borg bregðist við hætt­unni án taf­ar.

„Við lítum svo á að það verði að vanda til verka í þessu máli og auðvitað skiptir máli að fólkið okkar sem ferðast í lofti sé öruggt,“ segir Hildur að lokum. 

Dag­ur B. Eggerts­son, borg­ar­stjóri Reykja­vík­ur, sagði fyrr í dag á Facebook að kallað verði eft­ir sjón­ar­miðum þeirra sem hags­muna hafa að gæta í tengsl­um við kröfu Isavia.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert