Stjórn VR hefur ákveðið að hætta viðskiptum við Íslandsbanka og ætlar nú að leita tilboða í viðskipti og þjónustu hjá öðrum fjármálafyrirtækjum. Kemur ákvörðunin í kjölfarið á brotum bankans við sölumeðferð á hlut ríkisins í Íslandsbanka sem bankinn viðurkenndi. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef félagsins.
Í lok júní gaf VR út yfirlýsingu þar sem fram kom að brot bankans við sölumeðferð á eignarhlut ríkisins í bankanum væru með öllu óásættanleg og að starfsfólk ætti að bera ábyrgð frekar en að kostnaður við sektir falli á neytendur. „Orð eru ekki nóg og það dugar ekki að fórna bankastjóranum og halda svo áfram á sömu braut. Stjórn VR mótmælir því að einstaklingar geti gerst brotlegir við lög og reglur en þurfi ekki að bera af því kostnaðinn heldur séu himinháir reikningar sendir í formi sekta á fyrirtæki, sem neytendur greiða á endanum,“ sagði í tilkynningunni í júní.
Í yfirlýsingu í dag segir að viðbrögð bankans og svör forsvarsmanna hans við kröfum VR séu að mati stjórnar VR ófullnægjandi, en félagið hafði kallað eftir því að stjórn bankans og það starfsfólk sem ábyrgð bar á lögbrotum myndi axla ábyrgð.
Síðan þá hafa fimm stjórnendur hjá bankanum sem komu að sölunni, auk regluvarðar, látið af störfum hjá bankanum. Það á við um Birnu Einarsdóttur, sem var bankastjóri bankans, Atla Rafn Björnsson, sem var yfirmaður fyrirtækjaráðgjafar bankans, og Ásmund Tryggvason, sem var framkvæmdastjóri á sviði fyrirtækja og fjárfesta. Einnig hafði Sveinbjörn Sveinbjörnsson, fyrrverandi forstöðumaður eignastýringar bankans ráðið sig til Fossa og Ingvar Arnarson látið af starfi sínu sem forstöðumaður verðbréfamiðlunar.
Á hluthafafundi bankans í síðasta mánuði gáfu einnig þrír stjórnarmenn ekki kost á sér til áframhaldandi setu. Það voru þau Finnur Árnason stjórnarformaður, Guðrún Þorgeirsdóttir, varaformaður stjórnar, og Ari Daníelsson stjórnarmaður.