„Hækkunin kemur til með að hafa gríðarleg áhrif á bændur og þá sem stunda frumkvöðlastarf og bjóða meðal annars upp á kjötafurðir beint frá býli,“ segir Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands, um nýja gjaldskrárhækkun sem Matvælastofnun, MAST, hefur boðað.
Þá leggjast Bændasamtök Íslands alfarið gegn því að drög að gjaldskránni taki gildi og hafa þau ásamt Samtökum fyrirtækja í landbúnaði sameiginlega farið fram á það við matvælaráðuneytið að málið verið dregið til baka.
„Í grunninn er þetta það mikil breyting að hún gerir það að verkum að til dæmis heimaslátrun eða slátrun í minni sláturhúsum, það verður nánast útilokað að praktísera það í okkar huga,” segir Gunnar og bætir við að hækkunin komi til með að hafa víðtækari áhrif þar sem um sé að ræða talsverðar álögur á matvælaframleiðslu í landinu.
Gunnar segist ekki vongóður um að hlustað verði á óskir þeirra og málið dregið til baka.
„Við höfum svo sem beitt öllum brögðum í bókinni til þess að hafa áhrif á að þetta verði ekki svona svakalegt en þetta er umtalsverð hækkun. Ég velti því líka fyrir mér á hvaða vegferð við erum með þessum breytingum því nú hafa menn verið að kalla töluvert eftir „slow-food“, mat heiman úr héraði og allt það. Ef það er orðið ótækt vegna kostnaðar að slátra heima þá eru afleiðingarnar óhjákvæmilega þær að öll slátrun þurfi að fara fram í stórum sláturhúsum.“
Inntur eftir því hverjar afleiðingarnar verða ef heimaslátrun leggst af segir Gunnar hættuna felast í því að við verðum háðari innflutningi.
„Við væntanlega stefnum þangað. Slátrunin á eftir að fara fram í einhverjum risasláturhúsum og okkar draumur um að geta keypt beint frá býli verður að engu, bara einhverjir draumórar.“
Þá segir hann miður að fótum sé kippt undan framleiðslunni hjá þeim sem selja kjötafurðir sínar milliliðalaust. Sjálfbjargarviðleitni bænda hafi lítið að segja við þær aðstæður.
„Ég held að sjálfbærni verði bara fallegt orð á blaði ef þetta gengur eftir, því miður.“