Ásdís Kristjánsdóttir, bæjastjóri í Kópavogi, segir nauðsynlegt hafa verið að úthluta lóðum í Kársnesi til Fjallsólar ehf. án auglýsingar vegna skörunar bæjarlands og fasteigna í eigu félagsins, og tryggja þannig heildstæða uppbyggingu á reitnum.
Vandlega hafi verið farið yfir forsendur og tryggt að marksverð fékkst fyrir lóðina. Hún segir fulltrúa minnihlutans slíta málið algjörlega úr samhengi.
Samkomulagið milli bæjarins og Fjallasólar var samþykkt í bæjarstjórn á þriðjudag, en minnihlutinn lagði fram bókun þar sem samningurinn var fordæmdur, sem og meðferð málsins.
Um er að ræða lóðir á þróunarreit nr. 13 á svokölluðu þróunarsvæði Kársnes í Kópavogi, þar sem gert er ráð fyrir 150 íbúðum.
Sigurbjörg Erla Egilsdóttir, bæjarfulltrúi Pírata, sagði í samtal við mbl.is fyrr dag það algjöra svívirðu að fara svona með eignir Kópavogsbúa. Gagnrýndi hún meðal annars að lóðunum hefði verið úthlutað án auglýsingar og að bæjarstjóri hefði undirritað samkomulagið án þess að það að umræða hefði verið tekin um málið bæjarráði.
Benti hún á að að reglur væri í gildi um úthlutun á byggingarrétti þar sem kveðið væri á um að allar lóðir væru auglýstar á vef Kópavogsbæjar í að minnsta kosti tvær vikur, áður en úthlutun færi fram.
Spurð hvort þessi úthlutun lóða til Fjallasólar væri ekki á skjön við þær reglur sem Kópavogsbær hefði sett sér, segir Ásdís aðstæður hafa verið þannig að ekkert annað hafi verið í stöðunni.
„Við töldum nauðsynlegt að ganga frá samkomulagi við lóðarhafa um byggingarréttargjald áður en deiliskipulagið færi í auglýsingu þannig að tryggt væri að uppbyggingaraðilar væru að taka þátt í kostnaði á innviðauppbyggingu á svæðinu. Með þeirri ákvörðun var verið að standa vörð um hagsmuni íbúa bæjarins.“
Þá segir Ásdís málið hafa farið eðlilegan farveg, fyrst verið lagt fyrir bæjarráð og svo vísað til bæjarstjórnar.
Sigurbjörg gagnrýndi einnig að skipulag svæðisins gerði ekki ráð fyrir félagslega blandaðri byggð og að allar líkur væru á því að aðeins yrði um lúxus íbúðir að ræða.
Ásdís segir hönnun hins vegar ólokið og því ekki hægt að fullyrða hvers konar íbúðir muni rísa á reitnum.
„Sökum staðsetningar verður þetta eftirsóknarverður staður til að búa á.“