Ráðist var á tvær íslenskar stúlkur við Lion's Head-fjall í Höfðaborg í Suður-Afríku í gær. Maður réðst að stúlkunum með skotvopni og steini er þær gengu niður fjallið skömmu eftir sólsetur.
Í samtali við mbl.is segjast þær enn vera í áfalli eftir árásina en þær náðu að flýja árásarmanninn með því að kasta sér út af gönguleiðinni. Árásarmaðurinn barði aðra þeirra, Erlu Guðrúnu Egilsdóttur, með steininum og byssunni og náði að hafa bakpokann af vinkonu hennar, Andreu Heimisdóttur.
„Hann náði að berja mig alveg frekar illa í kringum augun,“ segir Erla þegar hún rifjar upp árásina.
Erla og Andrea voru að ganga niður fjallið skömmu eftir sólsetur, en mælt var með við þær að fylgjast með ljósaskiptunum frá Lion's Head. Vinkonurnar hafa verið á ferðalagi um nokkur Afríkulönd í sumar og hafa haft það sem reglu að vera ekki mikið á ferli eftir sólsetur en gerðu undantekningu í þessu tilviki.
Maðurinn réðst á þær á göngustígnum og náði fyrst bakpokanum af Erlu. Hún náði honum aftur af honum en maðurinn náði að hrifsa bakpokann af Andreu áður en þær létu sig falla út af gönguleiðinni og niður brattar hlíðar fjallsins.
Þær hlutu talsverða áverka í byltunni en hittu þar landvörð að nafni Daniel. Sími Andreu var í bakpokanum en Erla var enn með sinn og náðu þær að hringja á hjálp með aðstoð landvarðarins. Hann aðstoðaði þær svo við að fara til lögreglu og gefa skýrslu.
Þaðan fóru þær á sjúkrahús þar sem gert var að áverkum þeirra. „Það voru allir mjög hjálplegir og það var kona sem gaf okkur gos og súkkulaði þegar hún skutlaði okkur heim af sjúkrahúsinu,“ segja vinkonurnar í samtali við mbl.is.
Í kjölfarið höfðu þær einnig samband við borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins en svo vildi til að kjörræðismaður Íslands í Höfðaborg var einmitt stödd á Íslandi, en tengiliður hennar hefur verið í sambandi við Erlu og Andreu. „Við erum að fara í mat til hennar á morgun,“ segja stúlkurnar.
Erla og Andrea eru 22 ára og voru í lýðháskóla í Danmörku liðinn vetur. Í lok skólaársins var skólaferð til Kenía. Ákváðu þær stöllur að nýta tækifærið og ferðast meira um Afríku og heimsóttu meðal annars Sansibar á leið sinni til Suður-Afríku.
Vinkonurnar segjast enn í frekar miklu áfalli eftir árásina og finna vel til í líkamanum eftir gærdaginn. Þegar blaðamaður talaði við þær í dag voru þær mjög þreyttar. Stelpurnar segjast ætla að halda ferðalaginu áfram, þó að fyrst eftir árásina hafi þær langað til að fara beint heim til Íslands.
„Þetta var alveg mikið sjokk en við ætlum ekki að láta þetta stoppa okkur,“ segja þær að lokum.