Spáir seinkun orkuskipta

Hvammsvirkjun í Þjórsá er í biðstöðu eftir að úrskurðarnefnd umhverfis- …
Hvammsvirkjun í Þjórsá er í biðstöðu eftir að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála felldi virkjanaleyfi Landsvirkjunar úr gildi. Tölvumynd/Landsvirkjun

Mark­mið stjórn­valda um orku­skipti nást ekki árið 2040 eins og stefnt hef­ur verið að. Bíða þarf tíu árum leng­ur til að sá áfangi ná­ist, þ.e. til árs­ins 2050. Þetta kem­ur fram í raf­orku­spá Landsnets sem kynnt verður í dag, fimmtu­dag, en í henni er spáð fyr­ir um þróun fram­boðs og eft­ir­spurn­ar á raf­orku á tíma­bil­inu 2023 til 2060.

Að mati Landsnets tvö­fald­ast raf­orku­markaður­inn við full orku­skipti árið 2050. Raun­hæft sé að ná mark­miðum á for­send­um notk­un­ar það ár, komi ekki til tak­mark­ana á fram­boði orku. Tel­ur fyr­ir­tækið að vöxt­ur markaðar­ins verði að tals­verðu leyti hjá heim­il­um og smærri fyr­ir­tækj­um fyrstu árin, m.a. vegna orku­skipta.

Því er spáð að áform um nýj­ar vatns­afls- og jarðvarma­virkj­an­ir ásamt stækk­un­um þeirra virkj­ana sem fyr­ir eru muni ekki duga fyr­ir orku­skipt­um. Þeir kost­ir sem eru í nýt­ing­ar­flokki ramm­a­áætl­un­ar sem samþykkt var á Alþingi fyr­ir rúmu ári dugi ekki nema að tak­mörkuðu leyti til að mæta fyr­ir­sjá­an­legri þróun spurn­ar eft­ir raf­orku.

Horfa þurfi til fjöl­breytt­ari orku­gjafa eins og vindorku eða jafn­vel sól­ar­orku til að mark­mið ná­ist. Mik­il­vægt er talið að ferli ramm­a­áætl­un­ar og annarra ferla sé virkt og nái að fylgja þróun eft­ir­spurn­ar eft­ir raf­orku. Þegar ramm­a­áætl­un var loks samþykkt í fyrra, hafði hún verið í meðför­um Alþing­is í nær ára­tug.

Nú eru í und­ir­bún­ingi virkj­an­ir sem koma inn í rekst­ur á næstu fimm árum en Landsnet tel­ur mik­il­vægt að haf­inn verði und­ir­bún­ing­ur virkj­ana sem komi í rekst­ur næstu 5 til 10 árin á eft­ir. Landsnet bend­ir á að tækni fyr­ir orku­skipti í sam­göng­um á landi sé að mestu leyti til staðar nú þegar en hún þró­ast jafn­framt ört.

Vilji sé fyr­ir hendi til að orku­skipt­um í sam­göng­um á landi verði náð fyr­ir 2040 en rétt­ar ákv­arðanir og hvat­ar leiki lyk­il­hlut­verk í því að slíkt mark­mið ná­ist. Upp­bygg­ing innviða þurfi að styðja við þá þróun, bæði flutn­ings­kerfi raf­orku á milli lands­hluta sem og dreifi­kerfi.

Fjallað er nán­ar um málið í Morg­un­blaðinu í dag.

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert