Bjarni Benediksson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, segir ríkisfjármálin þróast með jákvæðum hætti langt umfram væntingar. Tvö ár í röð sé afkoman 100 milljörðum betri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Fjármál borgarinnar séu hins vegar „í rusli“.
„Stefna okkar í ríkisfjármálum á stóran þátt í viðsnúningnum, enda skapaði lág skuldastaða okkur tækifæri til að bregðast myndarlega við þegar á þurfti að halda. Við stóðum með heimilum og fyrirtækjum. Störfin komu til baka þegar faraldurinn var afstaðinn og staða ríkissjóðs verður um leið allt önnur,“ sagði Bjarni á flokksráðsfundi Sjálfstæðisflokksins í dag.
Viðurkenndi Bjarni að sumarið hefði óneitanlega verið tíðindameira í stjórnmálunum en menn ættu að venjast, af góðu jafnt sem illu. Stjórnmálin geti verið sveiflukennd rétt eins og tíðarfarið.
Bjarni talaði meðal annars um stjórnarsamstarfið og sagði málamiðlanir vera órjúfanlegan hluta samstarfs í stjórnmálum á Íslandi.
„Helst viljum við auðvitað að sjálfstæðisstefnan ráði för í öllum málum sem glímt er við, auðvitað og nema hvað. En gleymum því ekki að samstarfsflokkar okkar vilja sömuleiðis gera miklu meira af sínu, oft þvert á okkar eigin stefnu. Og þegar gengið er of langt í þeim efnum verðum við að sjálfsögðu að bregðast við.
Það er oft þannig að samstarfið getur tekið á. Það getur verið erfitt. Ég heyri jafnvel talað um að það sé orðið þreytt. En þó við verðum stundum þreytt.. Þó hlutirnir taki á.. Þá gefumst við ekki upp. Það er einfaldlega ekki í boði að gefast bara upp.“
Bjarni sagði það auk þess skipta máli hverjir stjórna.
„Sjálfstæðisflokkurinn er ekki fullkominn, rétt er það. En það er munur á því að vera ekki fullkominn og vera fullkomlega vonlaus. Og já - flestir hér inni vita hvaða flokk ég á við. Nýverið hefur umræddur flokkur til dæmis verið að innleiða nýja umhverfisstefnu í Reykjavík.
Hún felst í því að íbúar stunda ósjálfviljugir moltugerð í tunnunum heima. Verkefnið er afrakstur nokkurra stýrihópa, en niðurstaðan er einföld; ruslið er ekki sótt, borgarbúar hamast við að flokka, en sorpið safnast upp og er nú að verða óaðskiljanlegur hluti borgarlandslagsins.
Staðan á fjármálum borgarinnar er enda táknræn: Þau eru í rusli. Öll grunnþjónusta er að drabbast niður, en pólitísku gæluverkefnin þenjast út næstum jafnhratt og fjölmiðlatröllasvið borgarstjóra.“
Þá sagði Bjarni það vera sameignlega hagsmuni allra að verðbólgan haldi áfram að lækka og skilyrði þannig sköpuð fyrir lækkun vaxta að nýju. Það sé eitt stærsta hagsmunamál heimilanna nú um stundir.
„Nú er komið betra jafnvægi á húsnæðismarkaðinn, það skiptir miklu, en ekki verður horft fram hjá því að fyrir ungt fólk er þröskuldurinn inn á húsnæðismarkaðinn orðinn gríðarlega hár. Til að standa vörð um þá stefnu okkar að allir eigi að geta eignast eigið húsnæði þarf að ná vöxtum niður og svo tryggja til langs tíma nægilegt framboð af öllum gerðum húsnæðis.“
Hann sagði flokkinn ætla að halda áfram að efla háskólastarf, nýsköpun, rannsóknir og þróun.
„Við þurfum fleiri Kerecis, fleiri Marel og fleiri Controlant. Fyrirtæki sem hafa heiminn allan sem sitt framtíðarmarkaðssvæði, gríðarlega vaxtarmöguleika, draga þekkingu til landsins og greiða góð laun fyrir spennandi störf.“