Hermann Nökkvi Gunnarsson
Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri græn héldu flokksráðsfundi sína um helgina. Ályktanir flokkanna tveggja voru mjög ólíkar og allt lítur út fyrir að róðurinn þyngist í vetur.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, segir í samtali við Morgunblaðið að það sé ekkert nýtt í því að ályktanir flokkanna séu mjög ólíkar varðandi hvalveiðar. Um hvort þær hefjist 1. september segir hún:
„Sú atburðarás er bara rétt handan við hornið. Við þurfum bara að sjá hvernig henni vindur fram.“ Varðandi orkuöflun segir hún að erfitt sé að ná lendingu með VG. Fyrir liggi þó mjög skýr orkustefna fyrir Ísland sem hafi verið unnin þverpólitískt.
„Það hlýtur öllum að vera ljóst að ef við ætlum að ná þeim markmiðum þá verður að framleiða meira af grænni orku,“ segir Þórdís og kveðst gera ráð fyrir að sameiginlegur skilningur sé fyrir því að framleiða þurfi meira af orku. Varðandi útlendingamálin segir hún:
„Í mínum huga er það alveg skýrt að við erum ekki að fara að taka skref til baka eftir að hafa loksins klárað útlendingafrumvarp.“
Bætir hún við að hún búist við að ríkisstjórnarflokkarnir muni ná niðurstöðu í þessu máli, eins og öllum, við ríkisstjórnarborðið og á Alþingi.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.