Formaður Hinsegin daga segir það vera sorglegt ef transhatur verði „útflutningsgrein Miðflokksins“. Kveðst hann óánægður með skrif formanns Miðflokksins í breskum miðli og segir það bera í bakkafullan lækinn að flytja út transhatur til Bretlands.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, fékk í fyrradag birta grein í breska miðlinum Spectator. Greinin ber yfirskriftina „Hvernig trans hugmyndafræðin tók yfir Ísland“ en yfirskriftin var þó skrifuð af ritstjórn vikuritsins en ekki af Sigmundi sjálfum.
Í greininni rekur Sigmundur meðal annars söguna af því hvernig Samtökin 22 enduðu á því að halda málþing sitt í sal Miðflokksins eftir að aðrir salaleigendur höfðu aflýst bókun þeirra þegar þeir komust að því hvað samtökin stæðu fyrir. Skrifaði Sigmundur einnig að íslensk stjórnvöld hafi reynt að koma frumvarpi í gegn um kynrænt sjálfræði „án nokkurrar umræðu um áhrif þess á kvennaíþróttir, einkarými og fangelsi“.
„Það er auðvitað bara sorglegt ef transhatur á að vera einhver útflutningsgrein Miðflokksins, en þarf samt ekki að koma á óvart,“ segir Gunnlaugur Bragi Björnsson, formaður Hinsegin daga, í samtali við mbl.is.
„Miðflokkurinn hefur auðvitað verið að dansa svolítið á línunni sem svona hómó- og transfóbískur flokkur. Hann hefur til dæmis ekki tekið skýra afstöðu með réttindum hinsegin fólks. Kannski staðfestir þetta bara þann grun sem við höfðum.“
Segir Gunnlaugur það hins vegar gott að fólk komi til dyra eins og það sé klætt en bætir við að það „ber nú kannski í bakkafullan lækinn að reyna að flytja [transhatur] til Bretlands, þar sem staðan hefur líka farið versnandi“.
Gunnlaugur kveðst annars vegar vera þakklátur fyrir þann „þverpólitíska stuðning við málefni hinsegin fólks“ hér á landi en hins vegar sé það sorgleg staða þegar sitjandi þingmaður, formaður stjórnmálaflokks og fyrrverandi forsætisráðherra tali gegn réttindabaráttu trans fólks.
„Auðvitað gefur það þessum orðum meiri vigt að þetta er formaður stjórnmálaflokks og fyrrum forsætisráðherra. Þetta getur auðvitað verið hættulegt og vatn á myllu fólks sem er okkur fjandsamlegt. Orð svona fólks getur hvatt þennan hóp áfram til dáða.“