Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir að orsök mikillar bílaumferðar í Reykjavíkurborg síðustu daga sé mikil áhersla á einkabíla. Óbreytt stefna muni aðeins þýða enn meiri umferðartafir þar sem fjölgun íbúa fylgi fjölgun bílferða.
„Þessi staða er bein afleiðing skipulags með ofuráherslu á einkabílaumferð og áherslna sem voru lengst af ofan á á höfuðborgarsvæðinu, allt frá 1960 eða svo,“ skrifar borgarstjórinn á Facebook.
Segir hann „háværa hópa“, og „einhverja úr eldir kynslóð sérfræðinga“ trúa því að lausnin á umferðarvanda borgarinnar sé að halda í þá gömlu stefnu. „Það er því miður rangt.“
Bendir hann á að ítarlegar greiningar sýni afgerandi fram á að lausnin við vandanum sé fólgin í betra og þéttara skipulagi, sem býður meðal annars upp á betri valkostum í samgöngum með áherslu á betri aðstæður gangandi og hjólandi.
Þar séu auknar innviðafjárfestingar engin undantekning og ekki síst stórefling almenningssamgangna „með fjárfestingu í nýju hraðvagnakerfi, Borgarlínu, sem fengi forgang í umferðinni“.
„Annars gengur umferðin ekki upp og óbreytt stefna þar sem fjölgun íbúa fylgdi fjölgun bílferða í sama hlutfalli og áður myndi þýða enn meiri umferðartafir. Ekki síst fyrir þá sem eru í bíl.“
„Þessum greiningum, niðurstöðum og staðreyndum er ótrúlega sjaldan svarað með rökum heldur dylgjum um einkabílahatur og ég veit ekki hvað. Ekkert er fjarri sanni,“ segir Dagur.
„Það skiptir gríðarlega miklu máli að hafa skýra framtíðarsýn um skipulagsmál, samgöngumál og þróun höfuðborgarsvæðisins. Það skiptir þess vegna miklu máli að ramma slíka sýn ekki aðeins inn með orðum heldur samkomulagi til langs tíma þar sem fjárfestingar fylgja slíkri sýn og alvöru lausnum eftir.“
Nefnir hann að samgöngusáttmálinn sé samningur sem á að halda til langs tíma og bendir á að hann hafi notið yfirgnæfandi stuðnings flokka á Alþingi og þverpólitísks stuðnings í öllum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu á sínum tíma.
Kveðst Dagur hafa djúpa sannfæringu fyrir mikilvægi samgöngusáttmálans en „það er jafnframt algjörlega eðlilegt að uppfæra hann - líkt og nú er verið að gera“.
„Við eigum nefnilega öll sameiginlega hagsmuni af því að fjölbreyttar fjárfestingar í lykil-samgönguinnviðum gangi eftir - ekki síst þeir sem sjá fyrir sér að nota einkabíl áfram sem meginn samgöngumáta. En líka hin sem brenna fyrir betri almenningssamgöngum og innviðum fyrir gangandi og hjólandi.“ skrifar hann.
„Og ef við höldum kúrs fáum við betur skipulagt höfuðborgarsvæði, heilsusamlegra borgarumhverfi, áhugaverðari og öruggari hverfi með meiri nærþjónustu, meiri lífsgæði, betri loftgæði og betri þróun í loftslagsmálum einnig,“ skrifarborgarstjórinn að lokum.